U17 karla - sæti í milliriðlum tryggt
U17 karla tryggði sér sæti í milliriðlum undankeppni EM 2023 með 3-1 sigri gegn Lúxemborg.
Þorri Stefán Þorbjörnsson skoraði tvö mörk og Daníel Tristan Guðjohnsen eitt. Ísland mætir Frakklandi á mánudag í síðasta leik sínum í riðlinum.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og hvorugt lið skapaði sér opin marktækifæri, staðan markalaus þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks.
Síðari hálfleikurinn hófst með látum, en Daníel Tristan Guðjohnsen skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins tvær mínútur. Lúxemborg var hins vegar ekki lengi að svara markinu, en tveimur mínútum síðar tókst þeim að jafna leikinn með marki frá Tiziano Mancini. Jafnræði var með liðunum þangað til að Þorri Stefán skoraði tvö mörk með stuttu millibili. Bæði mörkin beint úr aukaspyrnu, í bæði skiptin hafði verið brotið á Daníel Tristan. Fyrra markið kom á 70. mínútu og það síðara á 74. mínútu.
Þessi úrslit þýða að Ísland er komið áfram í milliriðla sem leiknir verða næsta vor. Þau lið sem enda í efsta sæti síns riðils í milliriðlunum fara áfram í lokakeppni EM 2023 ásamt þeim sjö liðum sem eru með bestan árangur í öðru sæti. Lokamótið fer fram í Ungverjalandi dagana 17. maí - 2. júní.