Jafntefli gegn Slóveníu í lokaleik U15 karla
U15 landslið karla mætti Slóveníu í dag í síðasta leik sínum í UEFA Development Tournament sem fram fór í Slóveníu. Íslenska liðið hafði unnið einn leik og gert eitt jafntefli í leikjum sínum. Leikurinn var í járnum lengst af, lítið um marktækifæri, og jafnræði með liðunum. Slóvenar skoruðu eina mark fyrri hálfleiks skömmu fyrir leikhlé.
Leikurinn opnaðist eilítið í seinni hálfleik, leikhraðinn jókst og bæði lið fengu færi. Ketill Orri Ketilsson jafnaði metin á 71. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Áfram skiptust liðin á að sækja en mörkin urðu ekki fleiri og 1-1 jafntefli í hörkuleik niðurstaðan í venjulegum leiktíma.
Að leik loknum fór fram vítaspyrnukeppni þar sem Ísland vann 4-2 sigur.