Jörundur Áki ráðinn sviðsstjóri knattspyrnusviðs
KSÍ hefur ráðið Jörund Áka Sveinsson sem sviðsstjóra knattspyrnusviðs. Jörundur Áki tók í lok júlí tímabundið við yfirumsjón þeirra verkefna sviðsstjóra knattspyrnusviðs sem snúa að yngri landsliðum karla og kvenna, auk ýmissa annarra verkefna. Staðan var síðan auglýst í ágúst og alls bárust fjórar umsóknir. Sviðsstjóri knattspyrnusviðs ber ábyrgð á faglegu starfi KSÍ á knattspyrnusviði og heyrir undir framkvæmdastjóra.
Jörundur Áki, sem er með UEFA Pro þjálfaragráðu, mikla reynslu af knattspyrnustarfi og þjálfun. Hann hefur verið starfsmaður knattspyrnusviðs KSÍ síðustu ár og þjálfari U16 og U17 landsliða karla. Jörundur hefur þjálfað U21, U17 og U16 landslið karla og öll landslið kvenna og á að baki um eitt hundrað leiki sem aðalþjálfari landsliða, auk fjölmargra leikja sem aðstoðarþjálfari. Að auki hefur hann stýrt meistaraflokksliðum karla og kvenna í samtals um þrjú hundrað KSÍ-leikjum.
Helstu verkefnum og ábyrgð sviðsstjóra knattspyrnusviðs er lýst hér að neðan og mun Jörundur í starfi sínu hafa aðkomu að þjálfun yngri landsliða og vinna náið með þjálfurum A landsliða.
Helstu verkefni og ábyrgð sviðsstjóra knattspyrnusviðs KSÍ
Sviðsstjóri knattspyrnusviðs vinnur að því að efla faglega þekkingu og framþróun á knattspyrnusviði sambandsins þannig að sviðið standist alþjóðlegan samanburð. Sviðsstjóri hefur auk þess umsjón með markmiðasetningu því tengdu og vinnur að þróun afreksstefnu sambandsins.
- Yfirumsjón með samskiptum við aðildarfélög sambandsins og yfirþjálfara þeirra þegar kemur að eflingu og stuðningi við þeirra faglega starf.
- Sviðsstjóri er ábyrgur fyrir samræmingu og framþróun á vinnubrögðum við þjálfun landsliða og ber að sjá til þess að sú þekking sem er innan KSÍ nýtist íslenskri knattspyrnu sem best.
- Starfar með landsliðsnefndum KSÍ og öðrum fastanefndum eftir atvikum.
- Aðkoma að áætlanagerð og skipulagningu við rekstur knattspyrnusviðs og starfsmannahaldi þess í samráði við framkvæmdastjóra.
- Aðkoma að þjálfun landsliða.