U21 karla mætt til Tékklands
U21 árs landslið karla er mætt til Tékklands þar sem liðið mætir heimamönnum á þriðjudag.
Leikurinn er síðari viðureign liðanna í umspili fyrir EM 2023, en Tékkland vann fyrri leikinn á Víkingsvelli á föstudag 1-2. Það var Sævar Atli Magnússon sem skoraði mark Íslands af vítapunktinum í fyrri hálfleik. Það lið sem sigrar viðureignina fer áfram í lokakeppni EM 2023, en hún verður haldin í Georgíu og Rúmeníu næsta sumar.
Nokkrar breytingar hafa orðið á hóp liðsins á milli leikja. Ísak Snær Þorvaldsson getur ekki verið með vegna sýkingar í tönn og Sævar Atli Magnússon er í leikbanni. Í þeirra stað komu inn í hópinn Birkir Heimisson, Val, og Hilmir Rafn Mikaelsson, Venezia.
Leikurinn á þriðjudag fer fram á Stadion Strelecky ostrov í Ceske Budejovice og hefst hann kl. 16:00 að íslenskum tíma. Bein útsending verður frá leiknum á Viaplay.