Breiðablik og Valur mætast í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á laugardag
Úrslitaleikur Mjólkurbikarsins fer fram á Laugardalsvelli á laugardag klukkan 16:00 þegar Breiðablik og Valur mætast.
Breiðablik og Valur hófu keppni í 16-liða úrslitum. Valur mætti Tindastól og vann leikinn 4-1 á meðan Blikakonur heimsóttu sameiginlegt lið Fjarðarbyggðar, Hattar og Leiknis þar sem Breiðablik hafði betur 4-1. Í 8-liða úrslitum höfðu Valskonur betur gegn KR 3-0 og Blikakonur höfðu betur gegn Þrótturum 3-1.
Valur heimsótti Stjörnuna í undanúrslitum þar sem þær skoruðu þrjú mörk gegn einu marki Stjörnunnar. Þar með tryggði Valur sér í úrslit Mjólkurbikarsins í fyrsta skipti í 10 ár.
Breiðablik heimsótti Selfoss í undanúrslitum þar sem liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með 2-0 sigri.
Bæði lið hafa 13 sinnum orðið bikarmeistarar, Breiðablik eru ríkjandi bikarmeistarar en Valskonur unnu bikarinn síðast árið 2011.
Einar Ingi Jóhannsson verður dómari leiksins og honum til aðstoðar verða Oddur Helgi Guðmundsson og Jakub Marcin Róg. Hjalti Þór Halldórsson verður eftirlitsmaður og varadómari verður Egill Arnar Sigurþórsson.