• fim. 25. ágú. 2022

Aukafundur stjórnar KSÍ - 24. ágúst 2022

Aukafundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn miðvikudaginn 24. ágúst 2022 og hófst kl. 15:30. Fundurinn var haldinn á Teams.


 

Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson, Pálmi Haraldsson, Torfi Rafn Halldórsson og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mættir varamenn í stjórn: Halldór Breiðfjörð Jóhannsson og Tinna Hrund Hlynsdóttir.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Forföll: Orri V. Hlöðversson og Kolbeinn Kristinsson varamaður í stjórn.

Þá tóku Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ og Haukur Hinriksson lögfræðingur KSÍ sæti á fundinum.

Fundargögn:
- Erindi til stjórnar KSÍ (nr. 2) frá ÍA varðandi 2. deild kvenna (efri hluti)
- Erindi til stjórnar KSÍ frá Hamar varðandi 2. deild kvenna (neðri hluti)


1. Mótamál
a. Tekið var fyrir erindi frá ÍA og Hamar varðandi keppnisfyrirkomulag í 2. deild kvenna.

b. Torfi Rafn Halldórsson formaður mótanefndar reifaði sjónarmið nefndarinnar í málinu.

c. Stjórn tók erindin til afgreiðslu:

Erindi ÍA:
Stjórn KSÍ sýnir erindi Knattspyrnufélags ÍA fullan skilning. Staðan er hins vegar sú að keppnisfyrirkomulag í 2. deild kvenna hefur legið fyrir frá því í febrúarmánuði þessa árs. Stjórn KSÍ horfir sérstaklega til þess að í aðdraganda ákvarðanatöku um keppnisfyrirkomulag 2. deildar kvenna hafi samráð verið haft og tillit verið tekið til sjónarmiða félaga í viðkomandi deild. Þá hafi ákvörðun um endanlegt keppnisfyrirkomulag í 2. deild kvenna tekið mið af óskum meirihluta félaga í þeirri deild. Vinnubrögð mótanefndar voru með hag aðildarfélaga í deildinni að leiðarljósi. Stjórn KSÍ getur því ekki orðið við óskum Knattspyrnufélags ÍA um breytingu á keppnisfyrirkomulagi í 2. deild kvenna. Að breyta keppnisfyrirkomulagi í 2. deild kvenna í miðju móti myndi stríða gegn fyrirsjáanleika sem þarf að vera í fyrirrúmi við skipulagningu Íslandsmóta. Það er því samdóma álit stjórnar KSÍ að ekki séu aðrir vegir færir en að hafna erindi Knattspyrnufélags ÍA og ítreka fyrri ákvörðun á fundi stjórnar KSÍ þann 15. ágúst sl. Það skal þó tekið fram að það sé einnig álit stjórnar KSÍ að taka þurfi til skoðunar fyrirkomulag í 2. deild kvenna fyrir árið 2023.

Erindi Hamars:
Á grundvelli sömu sjónarmiða og reifuð eru hér fyrir ofan vegna erindis ÍA þá telur stjórn KSÍ að fyrirkomulagi í keppni neðri hluta í 2. deild kvenna verði ekki breytt og af þeim sökum er erindi Hamars hafnað.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 16:00