• þri. 23. ágú. 2022

2282. fundur stjórnar KSÍ - 15. ágúst 2022

2282. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn mánudaginn 15. ágúst 2022 og hófst kl. 16:00.


Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson (á teams), Orri V. Hlöðversson (tók sæti á fundinum kl. 16:20), Pálmi Haraldsson, Torfi Rafn Halldórsson og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mættir varamenn í stjórn: Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Kolbeinn Kristinsson og Tinna Hrund Hlynsdóttir.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Forföll:

Fundargögn:
- Fundargerð stjórnarfundar 2281
- Markaðskönnun Þjóðarleikvangs 2022 (á ensku og íslensku)
- Afrit ef eldri gögnum varðandi reglugerð um knattspyrnuleikvanga, grein 41
- Erindi til stjórnar KSÍ frá ÍA varðandi 2. deild kvenna
- Afrit af eldri gögnum varðandi keppnisfyrirkomulag í 2. deild kvenna
- Minnisblað frá lögfræðingi KSÍ varðandi erindi ÍA um 2. deild kvenna



1. Fundargerð síðasta fundar (2281) hefur þegar verið undirrituð með rafrænum hætti.

2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar og fluttar voru fréttir af vettvangi ÍTF.
a. Engar fundargerðir nefnda voru fyrirliggjandi.
b. Orri Hlöðversson formaður ÍTF, flutti fréttir af vettvangi ÍTF.

3. Verkefni milli funda
a. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður fór yfir mál Þjóðarleikvangs ehf. Framundan er markaðskönnun meðal alþjóðlegra rekstraraðila sem líklegir eru til að sýna því áhuga að bjóða í rekstur nýs þjóðarleikvangs.
b. Starf sviðsstjóra knattspyrnusviðs verður auglýst fljótlega.
c. Reglur og aðgerðaráætlun embættis Samskiptaráðgjafa íþrótta-og æskulýðsmála eru væntanlegar. Í framhaldi af því er hægt að ljúka við reglur KSÍ.
d. Fyrstu drög að samningum við leikmenn landsliða liggja fyrir.
e. Rætt um fræðslu til leikmanna félagsliða og landsliða.
f. Formaður lagði fram tillögu um að boða til funda fljótlega með formönnum og framkvæmdastjórum aðildarfélaga. Leitað verður samráðs við ÍTF varðandi fund með efstu deildum.

4. Mannvirkjamál
a. Unnar Stefán Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar reifaði erindi frá ÍA vegna úthlutunar úr mannvirkjasjóði. Stjórn KSÍ staðfesti fyrri ákvörðun varðandi úthlutun úr sjóðnum.
b. Nokkrar ábendingar hafa borist varðandi reglugerð KSÍ um mannvirkjasjóð. Stjórn KSÍ óskar eftir því við mannvirkjanefnd að nefndin fari yfir þær ábendingar sem hafa borist. Núverandi reglugerð sjóðsins gildir til 31.12.2023.
c. Unnar Stefán Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar upplýsti stjórn um umræðu í mannvirkjanefnd um ákvæði í reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, grein 41, flóðlýsing. Fyrir liggur samþykkt stjórnar að hækka kröfur til ljósmagns og fól stjórn LLR að ljúka málinu.

5. Mótamál
a. Lagt var fram erindi frá ÍA vegna keppnisfyrirkomulags í 2. deild kvenna. Torfi Rafn Halldórsson formaður mótanefndar reifaði málið og fór stjórn yfir fyrirliggjandi gögn. Stjórn KSÍ samþykkti að hafna beiðni ÍA um úrbætur á keppnisfyrirkomulagi í 2. deild kvenna og vísar til fyrri ákvörðunar 10. febrúar 2022 um keppnisfyrirkomulag í 2. deild kvenna. Framkvæmdastjóra var falið að svara erindi ÍA.
b. Rætt um stofnun starfshóps vegna frestunar leikja í yngri flokkum. Mótanefnd var falið að skipa starfshópinn.
c. Torfi Rafn Halldórsson formaður mótanefndar ræddi um önnur mótamál og nauðsyn þess að móta reglur um lágmarkshvíld á milli leikja í Evrópukeppni og leikja í deild og bikar, ekki síst í ljósi fjölgunar leikja. Nauðsynlegt er að hafa samráð við forráðamenn félaganna um málið.
d. Halldór Breiðfjörð formaður dómaranefndar ræddi um dómaramál en það er jákvætt að íslenskir dómarar eru að fá krefjandi verkefni erlendis. Rætt um hegðun gagnvart dómurum. Stjórn samþykkti að fela dómaranefnd að skoða til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að styðja við jákvæða hegðun gagnvart dómurum.
e. Stjórn samþykkti að skipa eftirtalda í starfshóp um félagaskiptaglugga:
 Haukur Hinriksson (KSÍ) formaður/starfsmaður hóps.
 Ólafur Kristjánsson (Breiðablik)
 Guðbjörg Fanndal Torfadóttir (ÍTF)
 Halldór Jón Garðarsson (Haukar)
 Víglundur Páll Einarsson (Einherji)
 Sif Atladóttir (Leikmannasamtökin)

6. Landsliðsmál
a. Rætt var um úrslitakeppni A kvenna í Englandi og komandi verkefni A landsliðs kvenna.
b. Rætt um næstu verkefni A karla.
c. Rætt um umspil U21 karla gegn Tékkum.
d. Rætt um komandi verkefni yngri landsliða.

7. Önnur mál
a. Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti umsókn KSÍ til ÍSÍ um mótvægisstyrk vegna heimsfaraldurs. Umsóknin verður send til stjórnar á morgun til samþykktar.
b. Lögð fram tillaga um næstu stjórnarfundi:
– 2. september (með fulltrúum landshluta)
– 6. október
– 1. nóvember
– 8. desember (jólafundur með fulltrúum landshluta)

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 18:40