A kvenna mætir Belarús í mikilvægum leik í byrjun september
A landslið kvenna mætir Belarús föstudaginn 2. september í næstsíðasta leik sínum í undankeppni HM 2023.
Ísland er í öðru sæti riðilsins, en sigur gegn Belarús á Laugardalsvelli myndi fleyta liðinu í efsta sæti hans. Ísland mætir svo Hollandi ytra í síðasta leik sínum þriðjudaginn 6. september.
Það lið sem endar í fyrsta sæti riðilsins fer beint áfram í lokakeppni HM 2023, en þau lið sem enda í öðru sæti síns riðils fara í umspil um sæti þar. Umspilið er tvískipt, fyrri umferðin er leikin 6. október og sú síðari 11. október. Þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í öðru sæti riðlanna fara beint í seinni umferðina og mæta þar sigurliðunum úr fyrri umferðinni.
Frekari útskýringar má finna á vef UEFA.