Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 2. ágúst leiðréttur
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur með heimild í grein 8.3. leiðrétt úrskurð nefndarinnar frá því 2. ágúst sl. þar sem leikmaður hjá Keflavík, Rúnar Þór Sigurgeirsson, hefði með réttu átt að vera úrskurðaður í eins leiks bann vegna sjö áminninga í Íslandsmóti á tímabilinu 2022.
Sjöundu áminningu sína fékk Rúnar í leik ÍBV og Keflavíkur í Bestu deild karla þann 30. júlí sl. Í ljós kom að áminning Rúnars á 67. mínútu framangreinds leiks hafði ekki verið skráð í skýrslu leiksins. Dómari leiksins og aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hafa nú staðfest að Rúnar Þór Sigurgeirsson hlaut áminningu á 67. mínútu leiksins og hefur leikskýrslu því verið breytt til samræmis. Samkvæmt því hefur úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, dags. 2. ágúst 2022, verið lagfærður í samræmi við það og Rúnar Þór Sigurgeirsson úrskurðaður í eins leiks bann vegna sjö áminninga í samræmi við grein 12.1.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Úrskurður um leikbann Rúnar Þórs tekur gildi á hádegi í dag, föstudaginn 5. ágúst 2022.
Ákvæði 8.3. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál er svohljóðandi:
Ef augljóst er, að kveðinn hafi verið upp rangur úrskurður varðandi agamál vegna villandi eða rangra upplýsinga í skýrslu dómara og/eða eftirlitsmanns eða rangrar/ófullnægjandi skráningar eða ef rangar upplýsingar hafa borist skrifstofu KSÍ, þá skal aga- og úrskurðarnefndin halda aukafund sbr. gr. 5.2. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál, og leiðrétta úrskurð eða kveða upp nýjan. Sá úrskurður skal taka gildi á hádegi næsta dag eftir uppkvaðningu.