Úrskurðir frá aga- og úrskurðarnefnd og niðurstöður Áfrýjunardómstóls KSÍ
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur úrskurðað í þremur málum. Hægt er að lesa um þau hér.
Mál nr. 4/2022 – Kf Álafoss gegn Ými vegna ólöglegs leikmanns í Íslandsmóti.
Í úrskurðarorði segir: „Úrslitum í leik Kf Álafoss gegn Ými í Íslandsmóti karla, 4. deild, D-riðli, sem fram fór þann 13. maí 2022 á gervigrasvellinum í Kórnum er breytt og skal leikurinn dæmdur tapaður fyrir Ýmir með markatölunni 0-3. Kærða, Ými, ber að greiða kr. 50.000 í sekt til KSÍ.“
Mál nr. 5/2022 – FC Árbær gegn Knattspyrnudeild Skallagríms vegna dómara í leik liðanna á Skallagrímsvelli.
Í úrskurðarorðum segir: „Úrslit í leik Skallagríms og Árbæjar í Íslandsmóti 4. deildar karla sem fram fór þann 16. maí 2022 standa óhögguð.“
Mál nr. 6/2022 – Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, gegn Knattspyrnudeild Aftureldingar vegna ósæmilegra opinberra ummæla.
Í úrskurðarorðum segir: „Knattspyrnudeild Aftureldingar skal ekki sæta viðurlögum vegna ummæla þjálfara Aftureldingar í mfl. kvenna sem vísað er til í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ, dags. 23. maí 2022.“
Niðurstöður frá Áfrýjunardómstóli KSÍ vegna beiðna frá félögum um áfrýjun.
7. júlí 2022 - Áfrýjunarbeiðni Vals vegna úrskurðar um leikbann.
Úr niðurstöðum frá Áfrýjunardómstól KSÍ: „Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat formanns áfrýjunardómstóls KSÍ að ekki séu fyrir hendi þær sérstöku ástæður, samkvæmt grein 16.2 e), fyrir því að dómstóllinn geti heimilað áfrýjun á tveggja leikja banni Guðmundar Andra Tryggvasonar samkvæmt úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 5. júlí 2022. Áfrýjunarbeiðni knattspyrnudeildar Vals er hafnað.“
6. júlí 2022 – Áfrýjunarbeiðni Kórdrengja vegna úrskurðar um leikbann.
Úr niðurstöðum frá Áfrýjunardómstól KSÍ: „Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat formanns áfrýjunardómstóls KSÍ að ekki séu fyrir hendi þær sérstöku ástæður samkvæmt grein 16.2 e), né skýr lagagrundvöllur fyrir því að dómstóllinn geti heimilað áfrýjun á eins leikssjálfkrafa leikbanni Davíðs Smára Lamude samkvæmt úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 28. júní 2022. Áfrýjunarbeiðni Íþróttafélagsins Kórdrengja er hafnað.“
14. júní 2022 – Áfrýjunarbeiðni Breiðabliks vegna úrskurðar um atvik í leik við Leikni.
Úr niðurstöðum frá Áfrýjunardómstól KSÍ: „Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat formanns áfrýjunardómstóls KSÍ að ekki séu fyrir hendi þær sérstöku ástæður samkvæmt grein 16.2 e) að dómstóllinn geti heimilað áfrýjun á tveggja leikja banni Omar Sowe samkvæmt úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 8. júní 2022. Áfrýjunarbeiðni knattspyrnudeildar Breiðabliks er hafnað.“