• sun. 10. júl. 2022
  • Landslið
  • A kvenna
  • EM 2022

Jafntefli gegn Belgíu

A landslið kvenna gerði 1-1 jafntefli við Belgíu í fyrsta leik sínum á EM 2022, en liðin mættust í Manchester að viðstöddum ríflega tvö þúsund íslenskum stuðningsmönnum sem létu vel í sér heyra.

Jafnræði var með liðunum framan af leiknum og bæði lið gerðu sig líkleg í sóknarleiknum.  Íslenska liðið fékk gullið tækifæri til að ná forystunni á 33. mínútu þegar boltinn fór í hönd varnarmanns Belga og vítaspyrna dæmd.  Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór á punktinn en brást bogalistin og markvörður belgíska liðsins varði.  Berglind bætti þó fyrir það þegar hún náði forystunni fyrir Ísland á 50. mínútu leiksins með skalla eftir fyrirgjöf frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og sótti hart að belgíska markinu, en það voru þó Belgarnir sem jöfnuðu metin úr vítaspyrnu á 67. mínútu.  Þar við sat og liðin skildu jöfn, 1-1.  Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Ítalíu á fimmtudag, einnig í Manchester.  Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og einnig verður hægt að fylgjast með gangi mála á samfélagsmiðlum KSÍ (@footballiceland).

Allt um EM 2022