Samstarfssamningur Icelandair og KSÍ endurnýjaður
Icelandair og KSÍ endurnýjuðu í dag samstarfssamninginn og var skrifað undir samninginn á Keflavíkurflugvelli í morgun, við brottför A landsliðs kvenna sem hefur nú ferðalag sitt á EM 2022. Með samstarfinu mun Icelandair styðja áfram dyggilega við starf KSÍ og starf landsliða Íslands en rekstur landsliða felur í sér mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ: „Við erum afar ánægð með að endurnýja samninginn við Icelandair, sem hefur stutt dyggilega við starf KSÍ og við íslensku landsliðin um langt árabil. Ferðalög landsliða eru auðvitað stór þáttur í okkar starfsemi og samstarfið við Icelandair er og hefur verið ómetanlegt.“
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair: „Samstarf okkar við KSÍ og önnur íþróttasambönd hefur verið mjög farsælt um langt árabil og við erum stolt af því að halda áfram að styðja myndarlega við íþróttastarf á Íslandi. Við erum mjög ánægð með nýtt jafnréttisákvæði í samningnum sem tryggir að fjármunum sé jafnt varið milli kynja. Það er vel við hæfi að kynna það nú þegar okkar öfluga kvennalandslið hefur ferðina á EM 2022. Við munum fylgjast spennt með og fylgja þeim alla leið í þeirri vegferð.“
Mynd: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Bogo Nils Bogason forstjóri Icelandair.