Dregið í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar kvenna
Dregið hefur verið í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar kvenna.
Valur og Breiðablik taka þátt í keppninni í ár fyrir hönd Íslands, en Breiðablik komst alla leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili.
Valur mætir FC Hayasa frá Armeníu í undanúrslitum síns riðils í forkeppninni, en í hinni viðureigninni mætast NK Pomurje Beltinci frá Slóveníu og Shelbourne FC frá Írlandi. Sigurvegarar viðureignanna mætast svo í úrslitaleik um sæti í næstu umferð forkeppninnar.
Breiðablik mætir Rosenborg BK Kvinner í undanúrslitum síns riðils í forkeppninni, en í hinni viðureigninni mætast FC Minsk og 1. FC. Slovacko. Sigurvegarar viðureignanna mætast svo í úrslitaleik um sæti í næstu umferð forkeppninnar.
Undanúrslitin fara fram 18. ágúst og úrslitaleikirnir 21. ágúst. UEFA mun fljótlega tilkynna hvar riðlarnir fara fram.