U23 kvenna mætir A liði Eistlands í júní
KSÍ hefur samið við Knattspyrnusamband Eistlands um vináttuleik milli kvennalandsliða þjóðanna 24. júní næstkomandi á Rannastaadion í Pärnu, Eistlandi. Eistland mun tefla fram A landsliði í leiknum, sem verður skráður sem A-landsleikur, en Ísland mun tefla fram U23 landsliði og mun Jörundur Áki Sveinsson stýra íslenska liðinu.
U23 landslið kvenna hefur einu sinni áður mætt A landsliði, en það var árið 2016 þegar íslenska liðið mætti pólska A landsliðinu og gerðu liðin 1-1 jafntefli (einnig skráður A landsleikur). Þess utan hefur liðið leikið tvo U23 leiki, gegn Skotlandi ytra árið 2012 og gegn Póllandi í Kórnum í febrúar 2015.
Þess má geta að verið er að leggja lokahönd á undirbúning A landsliðs kvenna fyrir úrslitakeppni EM sem fer fram á Englandi í sumar. Íslenska liðið mun leika einn vináttulandsleik fyrir mótið og vonast KSÍ til að geta staðfest leikinn innan fárra daga.