Arnþór Helgi Gíslason og Hafþór Bjartur Sveinsson dæmdu á IberCup Cascais
Arnþór Helgi Gíslason og Hafþór Bjartur Sveinsson dæmdu á dögunum á IberCup Cascais mótinu.
Mótið er barna- og unglingamót sem haldið er í Cascais í Portúgal, en Arnþór Helgi og Hafþór Bjartur dæmdu á mótinu á vegum fyrirtækisins Referee Abroad. Á mótinu taka mörg stór félagslið þátt og ber þar helst að nefna Real Madrid, Sporting CP og Malaga.
Þess má geta að eftirlitsmenn voru að störfum á mótinu og komu þeir úr öllum áttum, allt frá því að vera starfandi eftirlitsmenn hjá UEFA, starfandi FIFA dómarar og eftirlitsmenn í 4.-7. deild á Englandi. Hafþór Bjartur var með eftirlitsmann fyrsta daginn sem heitir Luis Nascimento Texeira, en hann er eini starfandi FIFA dómari Andorra og gaf marga góða og gagnlega punkta.
Referee Abroad er fyrirtæki sem sér um að manna mót í öllum heimsálfunum nema suðurskautinu. Flest mótin eru haldin í Evrópu. Ferlið virkar þannig að dómarar sækja um mót að eigin vali og fá samþykki eða höfnun fljótlega eftir umsókn. Þá huga dómarar að því að finna út úr ferðaáætlunum og að koma sér sjálfir á áfangastað. Síðan greiða dómarar vægt gjald og fá gegn því fullt fæði allan tímann á meðan mótinu stendur, hótelgistingu á 4 stjörnu hóteli og einnig eru dómarar sóttir og skutlað á flugvöll eftir þörfum hvers og eins. Í einhverjum tilfellum fá dómarar greitt fyrir leiki sem þeir dæma en það tíðkast frekar í Bandaríkjunum. Því er litið á þetta sem leið fyrir dómara til þess að ferðast á ódýrari hátt þar sem að hótelgistingin er nánast ókeypis og einungis þarf að greiða fyrir flugið sem er ódýrt.
Dómarar frá 20 þjóðum voru þarna en við dæmdum með dómurum frá Englandi, Ítalíu, Portúgal, Rúmeníu og Frakklandi. Ásamt því, var þetta fyrsta mótið á vegum Referee Abroad þar sem íslenskir dómarar koma við sögu og kom það fram í grein á heimasíðu þeirra.