Domino's styrkir íþróttaiðkun barna hjá Leikni
Domino's og Leiknir hafa gert samkomulag um átaksverkefni þar sem markmiðið er að auka þátttöku barna og unglinga í íþróttastarfi Leiknis. Domino's mun greiða æfingagjöld allra barna 6-16 ára hjá Leikni gegn nýtingu á frístundastyrk.
Á vef Leiknis segir að markmið verkefnisins sé að fjölga iðkendum um að lágmarki 50% á samningstímanum. Með þessu vilja Domino's og Leiknir lækka hlutfall barna sem eru óvirk í frístundastarfi í hverfinu en nýting frístundakortsins er lægst í Efra Breiðholti af öllum hverfum Reykjavíkur.
Átaksverkefnið er út árið 2023 og verður sérstök áhersla lögð á að miðla upplýsingum um verkefnið á fjölbreyttum tungumálum með það að markmiði að ná til sem flestra fjölskyldna í Efra Breiðholti.
Fjölskylduhátíð 1.maí
Formlegur samningur verður undirritaður á fjölskylduhátíð Leiknis og Domino‘s sem haldin verður 1. maí frá kl.13:00-16:00, í tilefni af upphafi verkefnisins. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ verða viðstödd og munu flytja stutt ávörp. Fjölbreytt skemmtidagskrá verður fyrir alla fjölskylduna og fríar pizzusneiðar og drykkir verða í boði Domino‘s.