Besta deild kvenna af stað á þriðjudag
Besta deild kvenna fer af stað á þriðjudag með tveimur leikjum.
ÍBV og Stjarnan ríða á vaðið og opna deildina þegar liðin mætast á Hásteinsvelli kl. 18:00. Valur og Þróttur R. mætast svo á Origo vellinum kl. 19:15. Umferðin klárast svo á miðvikudag með þremur leikjum. Breiðablik og Þór/KA mætast á Kópavogsvelli kl. 17:30, KR og Keflavík fer fram á Meistaravöllum kl. 18:00 og Afturelding tekur á móti Selfoss á Fagverksvellinum Varmá kl. 19:15.
Valur er ríkjandi Íslandsmeistari í efstu deild kvenna.
Í ár eru 50 ár síðan fyrsta deildakeppni kvenna fór fram. Átta félög tóku þátt í fyrsta Íslandsmótinu utanhúss og leikið var í tveimur riðlum. FH og Ármann sigruðu hvor sinn riðilinn. FH sigraði úrslitaleik liðanna 2-0 með mörkum frá Önnu Lísu Sigurðardóttur.