Ný forskrift fyrir læknisskoðun í Bestu deildum karla og kvenna
Mynd - Mummi Lú
Stjórn KSÍ hefur samþykkt nýja forskrift vegna læknisskoðunar leikmanna í meistaraflokki í Bestu deildum karla og kvenna. Samkvæmt leyfisreglugerð KSÍ ber félögum í efstu deild karla og/eða kvenna að tryggja að allir leikmenn sem eru gjaldgengir í meistaraflokki fari árlega í almenna læknisskoðun, samkvæmt forskrift KSÍ.
Ný forskrift læknisskoðunar, sem unnin var af heilbrigðisnefnd KSÍ, felur í sér a.m.k. eftirfarandi:
• Sjúkrasögu leikmanns (núverandi og fyrrverandi)
• Ættarsögu (m.a. hjarta og æðarsjúkdóma þ.m.t. hjartsláttartruflana, erfðasjúkdóma og skyndidauða)
• Geðsögu (andleg vanlíðan og átraskanir) (Nýtt í forskrift)
• Hjarta- og lungnaskoðun
• Hjartalínurit (EKG) á minnst 3 ára fresti. (Nýtt í forskrift)
• Kviðskoðun
• Útlimaskoðun
• Annað sem ástæða er til að skoða m.t.t. núverandi/fyrrverandi sjúkrasögu leikmanns
Eins og fram kemur í nýrri forskrift er læknisskoðun að grunni til góð sjúkrasaga, almenn læknisskoðun ásamt hjartalínuriti á minnst 3 ára fresti. Nánar tiltekið þá skal ekki líða lengri tími en 3 ár frá því hjartalínurit (EKG) var síðast framkvæmt hjá leikmanni félags í efstu deild karla eða kvenna. Skilyrði um hjartalínurit er nýjung í forskrift fyrir almenna læknisskoðun leikmanna. Þó munu félög sem leika UEFA-mótum á ári hverju þurfa að undirgangast enn ítarlegri læknisskoðun samkvæmt mótareglum þar um.“