• fös. 08. apr. 2022

2278. fundur stjórnar KSÍ - 4. apríl 2022

2278. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn mánudaginn 4. apríl 2022 og hófst kl. 16:00.

Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mætt á Teams: Ívar Ingimarsson, Orri V. Hlöðversson, Pálmi Haraldsson, Kolbeinn Kristinsson varamaður í stjórn og Tinna Hrund Hlynsdóttir varamaður í stjórn.

Mættir varamenn í stjórn: Halldór Breiðfjörð Jóhannsson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Þá tók Stefán Sveinn Gunnarsson sviðsstjóri markaðssviðs KSÍ sæti á fundinum undir dagskrárlið 2.

Forföll: Borghildur Sigurðardóttir varaformaður og Torfi Rafn Halldórsson.

Fundargögn:
- Fundargerð stjórnarfundar 2277.
- Handbók leikja.
- Samantekt á breytingum á knattspyrnulögunum.


1. Fundargerð síðasta fundar (2277) hefur þegar verið undirrituð með rafrænni undirritun.

Stefán Sveinn Gunnarsson sviðsstjóri markaðssviðs KSÍ tók sæti á fundinum.

2. Media hub
a. Stefán Sveinn Gunnarsson sviðsstjóri markaðssviðs fór yfir mál tengd media hub.
b. Stjórn KSÍ samþykkti að ganga til samninga um media hub. Jafnfram verður gerður samningur við ÍTF um jafna eignaskiptingu aðila á media hub.

Stefán Sveinn Gunnarsson vék af fundi.

3. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar og fluttar voru fréttir af vettvangi ÍTF.
a. Engar fundargerðir lágu fyrir fundinum.
b. Orri V. Hlöðversson formaður ÍTF flutti fréttir af vettvangi ÍTF.

4. Reglugerðarbreytingar.
a. Rætt um ákvæði (grein 22.1) í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga vegna fjölda leikmanna utan Evrópska efnahagssvæðisins. Framkvæmdastjóra falið að útbúa minnisblað fyrir næsta stjórnarfund.

5. Mannvirkjamál
a. Tekin var fyrir minnisblað frá mannvirkjanefnd KSÍ vegna þeirra vallarleyfa:
Vallarleyfi samþykkt fyrir Leiknisvöll til 31. desember 2022, undanþága vegna þaks á stúku samþykkt.
 Vallarleyfi samþykkt fyrir Vogavöll til 31. desember 2022, undanþága vegna fjölda sæta í stúku samþykkt.
 Vallarleyfi samþykkt fyrir Torfnesvöll til 31. desember 2022, undanþága vegna girðingar umhverfis völlinn.
 Vallarleyfi samþykkt fyrir Þróttaravöll til 31. desember 2022.
 Vallarleyfi samþykkt fyrir Akraneshöll til 31. desember 2023.

b. Frestað var umfjöllun um vallarleyfi fyrir KR völl gervigras (KV), Framvöll Safamýri (Kórdrengir) og Bogann (varavöllur).
c. Leikvellir Fram og KA eru ekki komnir með vallarleyfi þar sem framkvæmdir standa enn yfir.

6. Mótamál
a. Stjórn KSÍ samþykkti Handbók leikja 2022.
b. Stjórn KSÍ samþykkti að breytingar á Knattspyrnulögunum taki gildi á Íslandi þann 8. apríl næstkomandi.

7. Þjóðarleikvangur
a. Stjórn KSÍ samþykkti ályktun um þjóðarleikvang:

Vegna umræðu og umfjöllunar um málefni þjóðarleikvangs í knattspyrnu vill stjórn koma því á framfæri og árétta að málefni þjóðarleikvangs eru langt frá því að vera á upphafsreit. Fulltrúar KSÍ og knattspyrnunnar hafa undanfarin ár tekið virkan og reglulegan þátt í samráði, undirbúningi og starfi ýmissa vinnuhópa og átt í reglulegum samskiptum, formlegum og óformlegum, við fulltrúa ríkis og borgar og annarra aðila vegna málefna þjóðarleikvangs.

Meðal skrefa sem hafa verið tekin má nefna þátttöku í sérstakri ráðstefnu um þjóðarleikvang í samstarfi við bresk-íslenska viðskiptaráðið, stofnun félags með aðild KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins sem ætlað var að „starfa að undirbúningi og mögulegri uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal“, útboði á ráðgjafaþjónustu fyrir þjóðarleikvang þar sem markmiðið var að „leita tilboða í ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat vegna fjögurra mismunandi sviðsmynda við endurnýjun Laugardalsvallar“, og svo mætti áfram telja. Ekki má heldur gleyma því að haustið 2020 samþykkti ríkisstjórnin að „hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra“.

Að mati stjórnar KSÍ er það fullkomlega óásættanlegt ef ekki verður ráðist í undirbúning að byggingu þjóðarleikvangs í knattspyrnu á þessu ári eftir það sem á undan er gengið. Það verður að tryggja íslenskum landsliðum sem taka þátt í alþjóðlegum mótum og öllum þeim sem koma að slíkum keppnum og leikjum viðeigandi og viðunandi aðstöðu, hvort sem um ræðir keppendur, stuðningsmenn, fjölmiðla eða aðra, og það er brýnt að ráðist sé í þetta verkefni strax. Það er óviðunandi fyrir íslenska þjóð að á því sé raunveruleg hætta að heimaleikir íslenskra landsliða í knattspyrnu þurfi að fara fram á erlendri grundu. Þjóðarleikvangar í knattspyrnu og öðrum íþróttum verða að vera hluti af fjármálaáætlun og það verður að eyrnamerkja fjármagn til þeirra framkvæmda. Íslenskar íþróttir eiga það skilið.

Stjórn KSÍ óskar eftir frekari viðræðum við stjórnvöld án tafar um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin.


---

b. Stjórn KSÍ samþykkti að hafa vinnufund stjórnar síðar í apríl til þess m.a. að ræða málefni þjóðarleikvangs. Vinnufundurinn verður tengdur við stefnumótunarfundi UEFA sem verða 25. og 26. apríl.

8. Skipan í nefndir og starfshópa
a. Skipan í nefndir
Frestað.
b. Skipan í starfshópa
Margrét Hafsteinsson var skipuð í starfshóp um keppni varaliða.
Skipan í aðra starfshópa var frestað.

9. Önnur mál
a. Formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, flutti stjórn fréttir af FIFA þinginu sem fram fór 31. mars sl. í Katar, fundi Norðurlandanna sem fór fram við sama tilefni og fundi 10 fámennestu knattspyrnusambanda Evrópu sem einnig fór fram í Katar.
b. Halldór B. Jóhannsson formaður dómaranefndar KSÍ greindi stjórn frá landsdómararáðstefnu KSÍ sem fram fór um síðastliðna helgi og undirbúningi dómara fyrir komandi tímabil.
c. Næstu stjórnarfundir:
 26. apríl
 19. maí
 9. júní


Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 18:07.