Úrslitaleikur Lengjubikars kvenna í dag
Breiðablik og Stjarnan mætast í dag, föstudaginn 1. apríl, í úrslitaleik Lengjubikars kvenna.
Leikurinn fer fram á Samsungvellinum og hefst hann kl. 19:15. Bæði lið unnu 3-0 sigra í undanúrslitum, Breiðablik gegn Aftureldingu og Stjarnan gegn Val.
Það hefur ekki tekist að klára Lengjubikar kvenna síðan árið 2019 vegna heimsfaraldurs COVID-19, en það ár vann Breiðablik 3-1 sigur á Val í úrslitaleik mótsins. Stjarnan varð síðast Deildabikarmeistari kvenna árið 2014 þegar liðið vann 3-0 sigur á Breiðablik.
Breiðablik hefur unnið mótið sjö sinnum á meðan Stjarnan hefur hampað titlinum fjórum sinnum.