6 mánaða bann frá stjórnunarstörfum í knattspyrnu
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 25. mars var kveðinn upp úrskurður í máli ÍH gegn Haukum. Kærandi taldi að Haukar hefðu teflt fram ólöglegum leikmanni í viðureign liðanna í Lengjubikarnum þann 19. febrúar.
Óumdeilt var að mati nefndarinnar að leikmaður sem tók þátt í umræddum leik fyrir hönd Hauka var ekki hlutgengur til þátttöku í þeim leik enda skráður þá í annað félag. Var því lið Hauka ólöglega skipað til leiks og var gert að sæta 60.000 kr. sekt auk þess sem Haukar teljast hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3. Því til viðbótar komst aga- og úrskurðarnefnd að þeirri niðurstöðu, á grundvelli gagna málsins, að Haukar hafi vísvitandi ranglega fyllt út leikskýrslu í leik Hauka og ÍH með því að falsa nafn og kennitölu þátttakanda.
Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar segir frá því að Haukar hafi gengist við brotinu og vísar félagið til þess í greinargerð sinni að leikmanninum hafi verið spilað undir öðru nafni. Í samræmi við grein 36.3 í reglugerð um knattspyrnumót var Haukum gert að sæta sekt að fjárhæð kr. 100.000 vegna brotsins. Samkvæmt grein 36.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót skal þjálfari eða forystumaður sem stuðlar að því að nafn eða kennitala er fölsuð á leikskýrslu sæta leikbanni eða banni frá stjórnunarstörfum í knattspyrnu í allt að eitt ár. Var forráðamanni Hauka í leiknum því gert að sæta banni frá stjórnunarstörfum í knattspyrnu í sex mánuði.