KSÍ semur við Hudl
KSÍ hefur samið við greiningarfyrirtækið Hudl um að nýta Hudl-lausnir fyrir íslensku knattspyrnulandsliðin. Hudl er í fararbroddi á sviði lausna fyrir greiningar og frammistöðumat í afreksíþróttum og nýtist þjálfurum jafnt sem leikmönnum í knattspyrnu og öðrum íþróttum við að ná og halda forskoti í samkeppnisumhverfi. Yfir 200.000 íþróttalið og 50 knattspyrnusambönd, sem mörg hver eiga landslið á meðal þátttökuliða á komandi HM karlalandsliða, nota Hudl að staðaldri með góðum árangri.
Arnar Þór Viðarsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ:
“Það er mikill fengur fyrir KSÍ að semja við Hudl og landsliðsþjálfarar hafa þannig aðgang að framúrskarandi lausnum sem hjálpa okkar landsliðum í greiningarvinnu og undirbúningi fyrir leiki og mót. Með þessum samningi er KSÍ auðvitað líka að hjálpa okkar landsliðsfólki að taka skref í þróun sinni sem leikmenn. Hudl er fyrsta flokks lausn og innan þeirra raða er gríðarleg reynsla í greiningarvinnu sem mun gagnast KSÍ verulega”.
Samningurinn veitir íslensku landsliðunum aðgang að öflugri lausn á sviði myndbandsgreiningar, gagnasöfnunar og gagnavinnslu með Hudl og Hudl Sportscode. Innifalið í samningnum er einnig aðgangur að sérfræðingum og ráðgjöfum Hudl Pro Services, sem hafa gríðarmikla reynslu á sviði greiningarvinnu í alþjóðlegum afreksíþróttum.
Sam Lloyd, forsvarsmaður Hudl:
“Í hinum gagnadrifna heimi afreksíþrótta skiptir greiningar- og myndbandavinna gríðarlega miklu máli. Lausnir okkar hjá Hudl munu gera karla- og kvennalandsliðum Íslands kleift að vinna og greina frammistöðu leikmanna og liða með einföldum og öruggum hætti. Við erum mjög ánægð með að hafa samið við KSÍ og hlökkum til að styðja við starf þeirra og ekki síður við íslensku knattspyrnulandsliðin og þeirra þróun, með okkar öflugu lausnum og reynslumikla starfsliði”.