ÍA TV hlýtur fjölmiðlaverðlaun KSÍ 2021
Fjölmiðlaverðlaun KSÍ fyrir árið 2021 hlýtur ÍA TV vegna vefútsendinga frá knattspyrnuleikjum. Verðlaunin eru jafnan afhent í aðdraganda ársþings ár hvert og það var Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ sem afhenti fulltrúum ÍA TV verðlaunin.
Umhverfi beinna sjónvarpsútsendinga frá knattspyrnuleikjum hefur tekið nokkrum stakkaskiptum á undanförnum árum og er óhætt að segja að vefútsendingar (eða netstreymi) séu farnar að leika stórt hlutverk. Knattspyrnufélög eða stuðningsmannahópar þeim tengdir hafa mörg hver stigið það skref að streyma beint frá sínum leikjum á eigin miðlum (þar sem það er mögulegt vegna réttindamála), sem er virkilega góð og verðmæt þjónusta við stuðningsmenn, sér í lagi á Covid-tímum þar sem ekki hefur verið sjálfsagt að stuðningsmenn geti mætt á völlinn, og við höfum séð hraða framþróun á þessu sviði. ÍA TV, sem er einmitt stýrt og rekið af hópi stuðningsmanna ÍA, hefur staðið þar framarlega og það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi vexti vef-sjónvarpsstöðva íslenskra félaga á næstu árum.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ ásamt fulltrúum ÍA TV; (frá vinstri) þeim Ingimar Elfari Ágústssyni, Erni Arnarsyni, Arnari Óðni Arnþórssyni, Birni Þór Björnssyni og Snorra Kristleifssyni.