• fös. 18. feb. 2022
  • Ársþing

Framlög til aðildarfélaga í samræmi við áætlanir

KSÍ hefur birt ársreikning fyrir árið 2021 og fjárhagsáætlun fyrir 2022.

Ársreikningur 2021

Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2021 voru um 1.631 mkr eða 4% lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Styrkir og framlög ársins 2021 voru 2% undir áætlun og þar hafði styrking krónunnar mest áhrif. Annað árið í röð eru tekjur af landsleikjum undir áætlun, en árið 2020 hurfu svo til tekjur af heimaleikjum vegna áhorfendabanns og það sama gildir vegna ársins 2021. Þar spiluðu covid takmarkanir verulega inn í en gert hafði verið ráð fyrir mun hraðari afléttingu en raunin varð. Tekjur af landsleikjum eru þannig 25% lægri en áætlun ársins 2021, eða um 37 milljónum undir áætlun. Sjónvarpstekjur voru einnig undir áætlun sem skýrist af styrkingu krónunnar. Rekstrartekjur Laugardalsvallar voru í samræmi við áætlun.

Rekstrargjöld ársins 2021 voru í heildina um 1.506 mkr, en áætlanir gerðu ráð fyrir því að gjöldin yrðu um 1.520 mkr. Kostnaður landsliða fyrir árið 2021 var 2% undir áætlun, og kostnaður við mótahald og fræðslustarf var lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá var húsnæðiskostnaður undir áætlun og sömu sögu er að segja af öðrum rekstrarkostnaði og rekstrargjöldum Laugardalsvallar. Launakostnaður var undir áætlun þar sem nýtt var endurgreiðsluúrræði frá VMST vegna verkefnafalls en þó fór skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 16m fram yfir áætlun eða um 5%, sem skýrist af kostnaði við aðkeypta sérfræðiþjónustu og aukaþing sem fram fór þann 2. október 2021. Inni í aðkeyptri sérfræðiþjónustu er kostnaður við almannatengsl, lögfræðiráðgjöf, nefndarstörf, skýrslugerð og þýðingar. Húsnæðiskostnaður var undir áætlun og sömu sögu er að segja af öðrum rekstrarkostnaði og rekstrargjöldum Laugardalsvallar.

Hagnaður ársins fyrir ráðstöfun til aðildarfélaga var um 120 mkr. en áætlanir gerðu ráð fyrir 182m.
Alls var um 144 mkr úthlutað til aðildarfélaga, sem er í samræmi við áætlanir.
Rekstrarniðurstaða samstæðu Knattspyrnusambands Íslands á árinu er því lækkun á sjóð um 24,4 mkr.

Fjárhagsáætlun 2022

Gert er ráð fyrir að heildartekjur KSÍ árið 2022 verði um 1.668 mkr samanborið við kr. 1.631 árið 2021.
Gert er ráð fyrir að heildargjöld ársins 2022 verði um 1.532 mkr, samanborið við 1.506 mkr árið 2021. Áætluð rekstrarniðurstaða ársins 2022 eftir framlög til aðildarfélaga er um 21 mkr hagnaður.
Í fjárhagsáætlun 2022 er gert ráð fyrir að framlög til aðildarfélaga verði 118 mkr. Framlag KSÍ til barna- og unglingastarfs er áætlað 50 mkr og ennfremur er það tillaga fráfarandi stjórnar að forsendur til úthlutunar verði endurskoðaðar haustið 2022.   Þess má geta að árið 2022 kemur í fyrsta sinn frá UEFA framlag til félaga í efstu deild kvenna vegna Meistaradeildar UEFA (kvenna).
Greiðslur vegna leyfiskerfis verði 41,1 mkr. verðlaunafé móta rúmar 8 mkr og þá er gert ráð fyrir að hlutur KSÍ vegna ferðaþátttökugjalds verði tæpar 19 mkr árið 2022.

Hlekkir: