1-0 sigur gegn Nýja Sjálandi í fyrsta leik á SheBelieves Cup
A kvenna vann góðan 1-0 sigur gegn Nýja Sjálandi í fyrsta leik liðsins á SheBelieves Cup í Bandaríkjunum.
Ísland byrjaði leikinn frábærlega og var fyrsta mark leiksins komið strax á fyrstu mínútu þegar Dagný Brynjarsdóttir skoraði eftir hornspyrnu. Aldrei hefur mark verið skorað fyrr í sögu SheBelieves Cup!
Stelpurnar áttu tvö færi næstu mínúturnar og voru óheppnar að auka ekki forystu sína. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru báðar nálægt því að skora. Agla María Albertsdóttir var svo ekki langt frá því að skora annað mark Íslands, en skot hennar fór í varnarmann. Flottar fyrstu 15 mínútur í leiknum hjá íslenska liðinu.
Það nýsjálenska komst svo fljótlega betur inn í leikinn, en þó tókst þeim ekki að skapa nein opin færi. Leikurinn var jafn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og lítið markvert gerðist. Staðan því 1-0 í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var nokkuð jafn og skiptust liðin á að halda boltanum, en þeim gekk báðum illa að skapa sér góð færi. Cecilía Rán Rúnarsdóttir þurfti ekki að taka á stóra sínum í leiknum, en greip vel inn í þegar þurfti. Glódís Perla Viggósdóttir átti skalla yfir eftir hornspyrnu og Amanda Jacbosen Andradóttir var ekki langt frá því að skora eftir góðan sprett, en skot hennar fór í varnarmann. Fleiri mörk voru ekki skoruð og 1-0 sigur í fyrsta leik liðsins á SheBelieves Cup því staðreynd.
Ísland mætir Tékklandi næst sunnudaginn 20. október og fer sá leikur einnig fram á Dignity Health Sports Park í Los Angeles og verður í beinni útsendingu á Viaplay.