Tímamótasamningar um íslenskan fótbolta
Íslenskur Toppfótbolti og Knattspyrnusamband Íslands hafa undirritað tvo samtengda samninga við tækni- og fjölmiðlunarfyrirtækið Genius Sports um streymis- (e.“Betting Streaming“) og gagnarétt (e. "Data“) í tengslum við íslenska knattspyrnu (deilda- og bikarkeppnir) til næstu fimm ára, frá 2022 til 2026.
Umræddir samningar er þeir viðamestu og verðmætustu sem gerðir hafa verið á Íslandi, en áætlað verðmæti á samningstímanum er rúmlega einn milljarður íslenskra króna. Í þeim felst að GS kaupir rétt til dreifingar á myndmerki frá öllum leikjum í þremur efstu deildum karla og efstu deild kvenna og Bikarkeppni KSÍ, karla og kvenna, amk 504 leikjum árlega og mun fyrirtækið einnig annast alla gagnaöflun vegna veðmálastarfsemi. Að auki leggur Genius Sports til þjónustu til að fylgjast með því að leikir fari fram eftir reglum (e "Integrity“) um veðmálastarfsemi, veitir aðgang að gögnum til að standa undir margvíslegri vöruþróun, t.d. vegna s.k. „Fantasy" leiks, aðstoðar við uppsetningu Miðstöðvar (e. „Media Hub“), sem safnar saman öllum leikjum á einn stað og dreifir til fjölmargra notenda.
Með þessum samningum lokast fimm samninga lota varðandi íslenskan fótbolta, en áður hefur verið tilkynnt um samning ÍTF við Sýn varðandi útsendingaréttindi deildakeppni á Íslandi og við Evrópsku deildasamtökin ( e. „European Leagues“) og streymisveiturnar One Football og 11 (Eleven Sports) um dreifingu erlendis í gegnum öflugustu veitur heims í fótbolta (sjá upplýsingar hér að neðan). Þá samdi KSÍ við RÚV um útsendingar frá bikarkeppni karla og kvenna. Samtals verðmæti allra þessara samninga er yfir tveir milljarðar íslenskra króna. Næstu verkefni ÍTF og KSÍ snúa síðan að uppsetningu Miðstöðvar, frekari útbreiðslu knattspyrnunnar og sölu margvíslegra markaðsréttinda.
„Við höfum verið óþreytandi á þessu ári og öllu því síðasta að vinna að þessum málum nú er árangurinn að koma í ljós. Þessir samningar, og þeir sem á eftir fylgja, tryggja að við erum í dauðafæri til að tryggja að fótboltinn okkar komist á næsta þrep, öllum til hagsbóta, félögum, leikmönnum og hreyfingunni allri. Það eru gríðarmikil tækifæri framundan,“ sagði Orri Hlöðversson, formaður ÍTF við undirritunina.
Og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ bætti við: „Þetta eru gleðitíðindi fyrir íslenska knattspyrnu og íslenskar íþróttir og risaskref framávið. Reyndar einnig viðurkenning á að afrek íslenskra karla og kvenna á alþjóðavettvangi skila sér inní hreyfinguna hér heima.“
Jonny Katanchian, framkvæmdastjóri hjá Genius Sports: "We are delighted to have finalized our agreements with ÍTF and KSÍ and thereby becoming their trusted partner for the future exploitation of the Betting Streaming & Data rights to Icelandic Football. Genius Sports is a contracting partner to some of the world´s biggest players in this field, like the EFL, NFL, NASCAR and PLF and we are confident that we can assist ÍTF and KSÍ in bringing more value to their properties“.
Framkvæmdastjóri ÍTF Birgir Jóhannsson, s. 662 11 20 eða Stefán Sveinn Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ s. 899 3886 veita frekari upplýsingar. Ráðgjafi ÍTF/KSÍ varðandi ofangreint er Ingólfur Hannesson.
Genius Sports er gríðaröflugt tækni- og fjölmiðlunarfyrirtæki sem hefur sérhæft sig í gagnaöflun í íþróttum og er eitt hið stærsta á sínu sviði í veröldinni. GS er samstarfsaðili um 400 rétthafa um heim allan og eru þar í hópi m.a. Enska úrvalsdeildin, Alþjóðakörfuboltasambandið (FIBA) og Bandaríska ruðningsdeildin (NFL).
11 (Eleven Group) er stærsta streymisveita heims í fótbolta með um 65.000 klukkustundir af boltasparki árlega. 11 hefur eignast útsendingaréttindi frá um 150 samböndum, deildum, félögum og öðrum þeim sem skipuleggja og eiga knattspyrnuleiki. Á þeirra vegum eru 7 mismunandi streymisveitur og 25 rásir. Starfsmenn eru 300 á 11 starfsstöðvum um allan heim.
One Football hefur sérhæft sig í margháttuðu hliðarefni, t.d. fréttaþjónustu, þáttum beint úr myndveri, framleiðslu á myndböndum, streymi o.s.frv. One Football hefur um 100 milljónir notenda í hverjum mánuði og streymir yfir 3000 leikjum á ári hverju. Útsendingarnar ná til 193 landa og eru á 12 mismunandi tungumálum. Samstarfsaðilar One Football eru um 125 og eru þar í hópi fótboltasambönd, félög og ýmsir aðrir.