• fös. 11. feb. 2022
  • Landslið
  • A kvenna
  • Mjólkurbikarinn

A landslið kvenna á RÚV

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, skrifuðu í hádeginu í dag undir samning um sýningarrétt á leikjum A landsliðs kvenna annars vegar og leikjum Mjólkurbikars karla og kvenna hins vegar.  Samningurinn gildir til næstu 3 ára.

„Þetta er bara frábær samningur og við erum mjög ánægð. Okkur finnst bara það bara frábært að stelpurnar okkar, kvennalandsliðið, skuli vera komið í sjónvarp allra landsmanna þar sem allir geta fylgst með þeim þessum frábæru fyrirmyndum. Við gætum ekki verið ánægðari“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ af þessu tilefni.

Þetta hefur auðvitað mjög mikla þýðingu fyrir RÚV og knattspyrnuna í heild og þjóðina að fá tækifæri til þess að fylgja kvennalandsliðinu í öllum landsleikjum sem framundan eru þannig að þetta er bara gríðarlega spennandi verkefni“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. „Við viljum auðvitað fylgja okkar afreksfólki á stóra sviðið og sýna þjóðinni allri hversu frábæra íþróttamenn og konur við eigum og það er auðvitað okkar megin hlutverk að sjá til þess að allir hafi aðgang að þessu mikilvæga efni og umfram allt skemmtilega efni“ segir hann.

Af vef RÚV:

RÚV hefur hingað til sýnt frá heimaleikjum kvennalandsliðsins en í þessum samningi felst að RÚV sýnir nú bæði heimaleikina og eins þá landsleiki sem fara fram erlendis.Þar með bætist verulega við sýnileika kvennalandsliðsins og um leið bætist enn þjónustan við áhorfendur RÚV, en áhuginn á kvennalandsliðinu hefur vaxið mjög undanfarin ár, ekki síst í ljósi þess frábæra árangurs sem það hefur náð.  Þá er það íþróttadeild RÚV fagnaðarefni að fá Mjólkurbikarinn heim á ný eftir áralanga fjarveru enda er Mjólkurbikarkeppnin jafnan vettvangur spennandi leikja þar sem allt er undir og óvænt úrslit eiga sér reglulega stað.

Samningurinn styður enn frekar við þá stefnu RÚV að auka veg og sýnileika kvennalandsliðsins í fótbolta og rímar efni hans vel við sýningar RÚV frá EM kvenna sem fram fer í Englandi í sumar. Þar verða stelpurnar okkar í eldlínunni í sinni fjórðu úrslitakeppni EM í röð. Það er til marks um áhugann á kvennalandsliðinu að miðar á leiki liðsins seldust upp á methraða og ljóst að margir ætla að fylgja landsliðinu út og styðja stelpurnar. Fyrir þá sem heima sitja mun RÚV standa vaktina með beinum útsendingum og hinni ómissandi EM stofu.

Vefur RÚV