• þri. 25. jan. 2022
  • Stjórn
  • Ársþing

Hugum að kynjaskiptingu á ársþingi KSÍ

Við þurfum fleiri konur í fótbolta.

Þriðjungur skráðra knattspyrnuiðkenda (leikmanna) á Íslandi er kvenkyns, en þegar kemur að öðrum hlutverkum í knattspyrnuhreyfingunni er hlutfall kvenna mun lægra. Þessu þurfum við að breyta.

Fyrir ársþingið 2020 samþykkti stjórn KSÍ sérstaka hvatningu til aðildarfélaga um að huga að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum. Úr varð að á þinginu, sem haldið var á Ólafsvík, voru fleiri konur þingfulltrúar en nokkru sinni fyrr. Á þinginu 2021 fjölgaði konum aftur, en betur má ef duga skal og fjöldi kvenkyns þingfulltrúa á ársþingum hefur hvergi nærri endurspeglað hlutfall kvenna og stúlkna á meðal iðkendanna sjálfra.

Stjórn KSÍ hvetur því aðildarfélög til að huga vel og vandlega að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum fyrir 76. ársþing KSÍ, sem fram fer þann 26. febrúar næstkomandi. Þetta skiptir verulegu máli fyrir knattspyrnuhreyfinguna okkar.

Stjórn KSÍ