Grétar Rafn Steinsson til KSÍ
Grétar Rafn Steinsson hefur verið ráðinn til KSÍ sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnusviðs. Ráðningin er tímabundin til 6 mánaða og hefur Grétar Rafn strax störf. Með ráðningunni er stigið metnaðarfullt skref í greiningarvinnu innan KSÍ, sem mun gagnast félagsliðum og öllum landsliðum, þar á meðal t.d. A landsliði kvenna sem tekur þátt í úrslitakeppni EM á Englandi í sumar.
Á meðal helstu verkefna Grétars Rafns eru þarfagreining og skimun (scouting) innan Knattspyrnusviðs KSÍ, vinna að stefnumótun, fagleg efling á greiningarvinnu innan íslenskrar knattspyrnu almennt (landslið og félagslið) í samvinnu og samráði við starfsmenn Knattspyrnusviðs KSÍ og fulltrúa aðildarfélaganna eins og við á (í formi funda, námskeiða og fyrirlestra), samhæfing á greiningarvinnu og skimun yngri og eldri landsliða í samvinnu og samstarfi við þjálfara liðanna, og ábyrgð á þróun gagnagrunns sem heldur utan um gögn Knattspyrnusviðs KSÍ.
Grétar Rafn Steinsson, sem er Siglfirðingur og varð fertugur á dögunum, er knattspyrnuáhugafólki að góðu kunnur. Hann lék sem atvinnumaður til margra ára, í Sviss, Hollandi, Tyrklandi og Englandi. Á Íslandi lék hann lengst af með ÍA í meistaraflokki, en hóf þó ferilinn með KS. Grétar Rafn á 46 A-landsleiki fyrir Íslands hönd (4 mörk), auk leikja með öllum yngri landsliðunum.
Að loknum leikmannsferlinum lauk Grétar Rafn meistaranámi í íþróttastjórnun (Master in Sports Management) við Barcelona University (Johan Cruyff Institute) og er einnig útskrifaður sem Level 5 Technical Director frá enska knattspyrnusmbandinu, og hefur hann síðan starfað fyrir Fleetwood Town í 4 ár sem Technical Director og hjá Everton í 3 ár sem Head of Recruitment and Development.
KSÍ væntir mikils af störfum Grétars Rafns og býður hann velkominn til starfa.