A kvenna á SheBelieves Cup 2022
KSÍ getur staðfest að A landslið kvenna verður á meðal þátttökuliða á SheBelieves Cup, sem fram fer í Bandaríkjunum í febrúar 2022. Auk Íslands taka landslið Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands og Tékklands þátt. Keppnisfyrirkomulagið er einföld umferð þar sem öll liðin mætast einu sinni og eru leikdagarnir 17., 20. og 23. febrúar.
Tveir leikir fara fram í Los Angeles og einn í Dallas. Leikirnir í Los Angeles fara fram á Dignity Health Sports Park, en þar leikur LA Galaxy leiki sína. Í Dallas fara leikirnir fram á Toyota Stadium þar sem FC Dallas leikur sína heimaleiki í MLS deildinni.
SheBelieves Cup er boðsmót fyrir A landslið kvenna á vegum Knattspyrnusambands Bandaríkjanna. Mótið hefur verið haldið árlega síðan 2016 og þar hafa tekið þátt mörg af sterkustu landsliðum heims.
Eins og knattspyrnuáhugafólki er kunnugt um eru Ísland og Tékkland saman í riðli í undankeppni HM 2023 og hafa þau þegar mæst í Reykjavík þar sem Ísland vann 4-0 sigur. Bandaríska liðið er sem fyrr eitt af sterkustu landsliðum heims og lið Nýja-Sjálands verður annar af gestgjöfunum í úrslitakeppni HM 2023 sem fer fram þar í landi og í Ástralíu.
Hægt er að sjá leiktíma og leikdaga á vef KSÍ hér.