Kári og Sveindís Jane Knattspynufólk ársins 2021
Leikmannaval KSÍ hefur valið Sveindísi Jane Jónsdóttur og Kára Árnason knattspyrnufólk ársins 2021. Þetta er í 18. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.
Knattspyrnukona ársins
Mynd - Hulda Margrét Óladóttir
1. sæti
Sveindís Jane Jónsdóttir er Knattspyrnukona ársins í fyrsta skipti. Sveindís Jane gekk til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg í upphafi árs, en var svo lánuð til Svíþjóðar þar sem hún lék með Kristanstads DFF á nýliðnu tímabili. Þar átti hún stóran þátt í góðu gengi liðsins sem tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Sveindís Jane lék 24 leiki með liðinu á tímabilinu og skoraði í þeim átta mörk. Hún er einnig orðin fastur liður í byrjunarliði íslenska kvennalandsliðsins sem leikur í lokakeppni EM 2022 næsta sumar. Á árinu hefur hún leikið átta leiki með liðinu og skorað í þeim fjögur mörk
Mynd - Hulda Margrét Óladóttir
2. sæti
Glódís Perla Viggósdóttir hóf tímabilið með Rosengard í sænsku úrvalsdeildinni áður en hún gekk til liðs við Bayern München í Þýskalandi í júlí. Hún hefur leikið 16 leiki með liðinu síðan þá og skorað í þeim tvö mörk. Glódís Perla er lykilmaður í vörn íslenska kvennalandsliðsins og lék þar átta leiki á árinu, en þrátt fyrir að vera aðeins 26 ára gömul hefur hún leikið 97 A landsleiki og er ljóst að hún brýtur 100 leikja múrinn á nýju ári.
Mynd - Hulda Margrét Óladóttir
3. sæti
Dagný Brynjarsdóttir hefur átt gott ár og er í stóru hlutverki hjá West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Hún hefur leikið 19 leiki með liðinu á árinu og skorað í þeim tvö mörk. Dagný hefur verið fastamaður með íslenska kvennalandsliðinu á árinu, leikið sjö leiki og skorað þrjú mörk.
Knattspyrnumaður ársins
Mynd - Guðmundur Lúðvíksson
1. sæti
Kári Árnason er Knattspyrnumaður ársins í fyrsta skipti. Kári lék með Víking R. á síðasti tímabili, en lagði skóna á hilluna að því loknu. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu í sumar, en Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn síðan 1991 ásamt því að verja Mjólkurbikarinn. Kári lék 23 leiki í deild og bikar á tímabilinu og skoraði í þeim eitt mark, en það kom einmitt í síðasta leik hans á ferlinum, í bikarúrslitunum gegn ÍA. Hann lék þrjá leiki með íslenska karlalandsliðinu á árinu, en fyrir leik liðsins gegn Liechtenstein 11. október var hann heiðraður fyrir feril sinn með liðinu.
Mynd - Guðmundur Lúðvíksson
2. sæti
Birkir Bjarnason gekk til liðs við Adana Demirspor í Tyrklandi síðastliðið sumar frá Brescia. Þar hefur hann komist vel inn í liðið, leikið 14 leiki á tímabilinu og skorað í þeim þrjú mörk. Hann lék alla leiki karlandsliðsins á árinu, 13 talsins, og skoraði í þeim eitt mark. Birkir varð í lok árs leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi og hefur hann nú leikið 105 A landsleiki og skorað 14 mörk.
Mynd - Guðmundur Lúðvíksson
3. sæti
Jóhann Berg Guðmundsson leikur sem fyrr með Burnley í ensku úrvalsdeildinni, en þar hefur hann verið frá 2016. Á tímabilinu hefur hann leikið 16 leiki með liðinu, en liðið er í 18. sæti deildarinnar. Jóhann Berg lék fjóra leiki með karlalandsliðinu á árinu.