Tap hjá Breiðablik gegn Real Madrid
Breiðablik tapaði 0-3 fyrir Real Madrid í Meistaradeild kvenna, en leikið var á Kópavogsvelli.
Aðstæður voru erfiðar, en mikið snjóaði fyrir leik og á meðan leik stóð. Völlurinn var því sleipur og erfiður viðureignar fyrir liðin. Gestirnir voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, en Kosovare Asllani skoraði þau bæði.
Breiðablik léku mun betur í síðari hálfleik, sköpuðu sér nokkur færi og voru óheppnar að skora ekki. Real Madrid bætti svo þriðja marki sínu við á 80. mínútu þegar Claudia Zornoza skoraði. Fleiri mörk voru ekki skoruð og 3-0 sigur Real Madrid því staðreynd.
Síðasti leikur liðsins í riðlakeppninni fer fram fimmtudaginn 16. desember þegar Breiðablik mætir PSG í París.