• mið. 01. des. 2021

2269. fundur stjórnar KSÍ - 23. nóvember 2021

2269. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn þriðjudaginn 23. nóvember 2021 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram í Laugardalnum og á Teams.

Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Ásgrímur Helgi Einarsson, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Ingi Sigurðsson (yfirgaf fundinn kl. 20:15), Orri V. Hlöðversson (fulltrúi ÍTF), Sigfús Ásgeir Kárason og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mætt á Teams: Borghildur Sigurðardóttir varaformaður (yfirgaf fundinn kl. 20:15) og Valgeir Sigurðsson varaformaður.

Mættir varamenn í stjórn: Kolbeinn Kristinsson (yfirgaf fundinn kl. 19:30), Margrét Ákadóttir (tók sæti á fundinum kl. 16:35) og Þóroddur Hjaltalín.

Fjarverandi:

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Gestir undir dagskrárlið 10: Steven Martens FIFA Technical Director, Hesterine de Reus FIFA High Performance Specialist og Charles Boorman FIFA MA Division.

1. Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og undirrituð:
a. Fundargerð 2269.

2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar og fluttar fréttir af vettvangi ÍTF:
a. Unglinganefnd 2. nóvember 2021.
b. Mótanefnd 17. nóvember 2021.
c. Laga- og leikreglnanefnd 18. nóvember 2021.
d. Fjárhags- og endurskoðunarnefnd 22. nóvember 2021.
e. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður og Valgeir Sigurðsson varaformaður greindu frá fundi sínum með stjórn ÍTF sem fram fór í gær. Fundurinn var jákvæður og gagnlegur og komið var víða við í umræðuefnum. Samstarfssamningur KSÍ og ÍTF rennur út um næstu áramót og þurfa báðir aðilar að fara yfir samninginn í sínu baklandi og fara síðan í viðræður um framhaldið. Valgeir og Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ eiga fund með fulltrúum ÍTF 24. nóvember til að fara yfir mótamál o.fl. Rætt var um samninga ÍTF varðandi markaðsréttindi og sjónvarpsmál og kynningu fyrir stjórn KSÍ.

3. Sigfús Ásgeir Kárason formaður laga- og leikreglnanefndar fór yfir tillögur til reglugerðarbreytinga.
a. Rætt var um þá breytingu sem var samþykkt á milli funda á leyfisreglugerð. Í breytingunni var skerpt á þeim ákvæðum sem gilda varðandi möguleika á undanþágum fyrir félög í 1. deild. Breytingar fella ekki úr gildi skilyrði um starfrækslu yngri flokka hjá félögum í 1. deild. Um ræðir undanþáguheimild sem getur nýst ef félagi er ókleift að starfrækja yngri flokka, t.d. vegna fámennis í byggðarlagi eða af öðrum ástæðum. Sem dæmi hefur ÍBR upplýst KSÍ um það að ekki séu til staðar úrræði fyrir ný félög í Reykjavík til að byrja með yngri flokka starf, þar sem íþróttahverfi borgarinnar séu fullnýtt. Undanþáguheimild í 17. grein gerir þó kröfu um að viðkomandi félag komi að barna- og unglingastarfi með öðrum hætti. Skýr krafa er um að félagið styðji við barna- og unglingastarf innan aðildarfélags/aðildarfélaga KSÍ innan eða utan sama umdæmis. Slíkum stuðningi er fylgst vandlega með og fylgt eftir af knattspyrnusviði KSÍ. Undanþáguheimildir þessar gilda ekki í efstu deild karla og kvenna.
b. Stjórn samþykkti tillögu að bráðabirgðaákvæðum í reglugerð um knattspyrnumót varðandi Íslandsmót 3. flokks A-liða keppnistímabilið 2022.

Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.

REGLUGERÐ KSÍ
um knattspyrnumót

Lagt er til að fremst í 25. gr., fyrir ofan grein 25.1, verði eftirfarandi texta komið fyrir:
Þrátt fyrir ákvæði 25.1 fer um keppni A-liða keppnistímabilið 2022 eftir bráðabirgðaákvæði 25.4.

Lagðar eru til nýjar greinar 25.4. og 25.5. til bráðabirgða fyrir keppnistímabilið 2022:
25.gr.
3. flokkur karla
Ákvæði til bráðabirgða fyrir keppnistímabilið 2022.
25.4. Íslandsmót A-liða
25.4.1. Í 3. flokki skal keppni A-liða keppnistímabilið 2022 fara eftir ákvæði þessu.
25.4.2. Liðum skal raðað niður í átta liða riðla eftir getu en þó ræðst fjöldi liða í hverjum riðli af fjölda skráðra liða. Í öllum riðlum skal leikin einföld umferð skv. töfluröð í grein 20 og ræðst númer liða í töfluröð af árangri. Mótanefnd KSÍ er þó heimilt að ákveða breytt leikjafyrirkomulag í einstaka riðlum ef þurfa þykir að mati nefndarinnar, til að mynda a.t.t. til fjölda liða í umræddum riðli / riðlum.
25.4.3. Íslandsmót A-liða skal leikið í þremur lotum með eftirfarandi hætti:
a) Lota 1; skal leikin frá mars til maí mánaðar.
b) Lota 2; skal leikin frá maí til júlí
c) Lota 3; skal leikin frá ágúst til september.
Miðað skal við að tvö neðstu liðin í hverjum riðli í hverri lotu, að neðsta riðlinum undanskildum, færist niður um riðil fyrir næstu lotu og tvö efstu liðin í hverjum riðil í hverri lotu, að efsta riðlinum undanskildum, færist upp um riðil. Eftir að keppni er í lokið í lotu 3 skal sigurvegari í efsta riðli krýndur Íslandsmeistari.
25.4.4. Nánar fer um mótafyrirkomulag eftir ákvörðun mótanefndar.

25.5 Undanþága frá keppni A-liða
25.5.1 Mótanefnd er heimilt að veita félagi undanþágu til að skrá lið til keppni með eftirfarandi hætti keppnistímabilið 2022:
a) Félag sem skráir eitt lið til keppni getur óskað eftir að það leiki sem B lið.
b) Félag sem skráir tvö lið til keppni getur óskað eftir að lið 2 leiki sem C lið.
Með umsókn um undanþágu þarf að fylgja rökstuðningur sem m.a. tekur mið af þátttöku og árangri í undangengnum mótum, fjölda iðkenda o.s.frv. Rökstuðningur skal fylgja þátttökutilkynningu.


Lagt er til að fremst í 31. gr., fyrir ofan grein 31.1., verði eftirfarandi texta komið fyrir:
Þrátt fyrir ákvæði 31.1 fer um keppni A-liða keppnistímabilið 2022 eftir bráðabirgðaákvæði 31.4.

Lagðar eru til nýjar greinar 31.4. og 31.5. til bráðabirgða fyrir keppnistímabilið 2022:

31.gr.
3. flokkur kvenna
Ákvæði til bráðabirgða 2022
31.4. Íslandsmót A-liða
31.4.1. Í 3. flokki skal keppni A-liða keppnistímabilið 2022 fara eftir ákvæði þessu.
31.4.2. Liðum skal raðað niður í átta liða riðla eftir getu en þó ræðst fjöldi liða í hverjum riðli af fjölda skráðra liða. Í öllum riðlum skal leikin einföld umferð skv. töfluröð í grein 20 og ræðst númer liða í töfluröð af árangri. Mótanefnd KSÍ er þó heimilt að ákveða breytt leikjafyrirkomulag í einstaka riðlum ef þurfa þykir að mati nefndarinnar, til að mynda a.t.t. til fjölda liða í umræddum riðli / riðlum.
31.4.3 Íslandsmót A-liða skal leikið í þremur lotum með eftirfarandi hætti:
a) Lota 1; skal leikin frá mars til maí mánaðar.
b) Lota 2; skal leikin frá maí til júlí
c) Lota 3; skal leikin frá ágúst til september.
Miðað skal við að tvö neðstu liðin í hverjum riðli í hverri lotu, að neðsta riðlinum undanskildum, færist niður um riðil fyrir næstu lotu og tvö efstu liðin í hverjum riðil í hverri lotu, að efsta riðlinum undanskildum, færist upp um riðil. Eftir að keppni er í lokið í lotu 3 skal sigurvegari í efsta riðli krýndur Íslandsmeistari.
31.4.4 Nánar fer um mótafyrirkomulag eftir ákvörðun mótanefndar.

31.5 Undanþága frá keppni A-liða
31.5.1. Mótanefnd er heimilt að veita félagi undanþágu til að skrá lið til keppni með eftirfarandi hætti keppnistímabilið 2022:
a) Félag sem skráir eitt lið til keppni getur óskað eftir að það leiki sem B lið.
b) Félag sem skráir tvö lið til keppni getur óskað eftir að lið 2 leiki sem C lið.
Með umsókn um undanþágu þarf að fylgja rökstuðningur sem m.a. tekur mið af þátttöku og árangri í undangengnum mótum, fjölda iðkenda o.s.frv. Rökstuðningur skal fylgja þátttökutilkynningu.

c. Stjórn samþykkti tillögu að breytingu á ákvæði 22.4 í reglugerð um knattspyrnumót varðandi útivallarmark í úrslitakeppni.

Breytingar sem lagðar eru til eru yfirstrikaðar.

REGLUGERÐ KSÍ
um knattspyrnumót


Lögð er til eftirfarandi breyting á ákvæði 22.4:
22.4. Þegar leikið er til þrautar í útsláttarfyrirkomulagi þannig að leikið er í tveimur leikjum, heima og heiman, þar kemst það lið áfram, sem skorað hefur fleiri mörk samanlagt í báðum leikjum viðkomandi liða. Fáist ekki úrslit þannig, skal það lið komast áfram sem skorað hefur fleiri mörk á útivelli. Fáist ekki úrslit þannig, skal framlengt í síðari leik liðanna og sé enn jafnt (enn gildir, að það lið kemst áfram sem skorað hefur fleiri mörk á útivelli), skulu úrslitin ráðin með vítaspyrnukeppni.

Ákvæði 22.4 mun eftir breytingu hljóða svo:
22.4. Þegar leikið er til þrautar í útsláttarfyrirkomulagi þannig að leikið er í tveimur leikjum, heima og heiman, þar kemst það lið áfram, sem skorað hefur fleiri mörk samanlagt í báðum leikjum viðkomandi liða. Fáist ekki úrslit þannig, skal framlengt í síðari leik liðanna og sé enn, skulu úrslitin ráðin með vítaspyrnukeppni.


d. Stjórn samþykkti tillögu að breytingu á ákvæði 10 í reglugerð um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga varðandi undanþágur félagaskipta í tengslum við fæðingarorlof kvenleikmanna.

Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.

REGLUGERÐ KSÍ
um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga

Lögð eru til ný ákvæði 10.4 og 10.5:
10.4 Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. er heimilt að samþykkja félagaskipti kvenleikmanns utan félagaskiptatímabila þegar um er að ræða leikmann sem ætlað er að fylla skarð samningsbundins kvenleikmanns í fæðingarorlofi. Gildistími samnings við viðkomandi leikmann, sem ætlað er að fylla skarð samningsbundins leikmanns í fæðingarorlofi, skal, nema um annað sé samið, vera frá skráningardegi félagaskipta fram að næsta degi áður en næsta félagaskiptatímabil hefst, eftir endurkomu leikmanns úr fæðingarorlofi.
10.5 Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. er heimilt að samþykkja félagaskipti kvenleikmanns utan félagaskiptatímabila þegar um er að ræða kvenleikmann sem er að hefja æfingar og keppni aftur eftir að hafa lokið fæðingarorlofi og er á þeim tíma samningslaus og þannig frjálst að hafa félagaskipti.


4. Staða verkefna
a. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ opnaði umræðu um landsliðsmál. Rætt var um ferð A landsliðs karla til Rúmeníu og Norður-Makedóníu. Áður hafði formaður hringt í alla stjórnarmeðlimi og greint þeim frá þeim málum sem til umræðu komu. Þar var rætt um starf og stöðu aðstoðarlandsliðsþjálfara A-liðs karla í kjölfar atvika sem hafa komið til kasta sambandsins. Fyrir liggur áminning í starfi til umrædds starfsmanns frá því sl. sumar. Niðurstaða málsins varð sú að stjórn KSÍ og Eiður Smári Guðjohnsen komust að samkomulagi um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla. Samkomulagið snýr að því að virkjað verður endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi sem gerður var milli hans og KSÍ og mun hann láta af störfum 1. desember næstkomandi. Stjórn KSÍ þakkar Eiði Smára fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.
b. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ gaf stjórn skýrslu um fundi með aðildarfélögum. Búið er að funda með félögum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Í næstu viku eru á dagskrá fundir með félögum á Vestfjörðum og Vesturlandi. Fundirnir hafa gengið vel og hafa athyglisverðir punktar komið frá aðildarfélögum.
c. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ gaf stjórn skýrslu um fundi með bakhjörlum sambandsins. Þeir fundir hafa gengið vel og miða að því að upplýsa umrædda bakhjarla um stöðu þeirra aðgerða er ráðist hefur verið í á síðustu vikum sem og að staðfesta að starfsemi sambandsins gangi vel.
d. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ gaf stjórn skýrslu um fund sinn með fulltrúum Knattspyrnuþjálfarafélagsins sem fram fór í dag. Von er á formlegu erindi frá félaginu í framhaldinu.

5. Umræðu um viðbrögð við skýrslu starfshóps I var frestað til næsta fundar.

6. Viðbragðsáætlun
a. Drög frá formanni voru lögð fram til kynningar en umræðu var frestað til næsta fundar.

7. Mótamál
a. Umræðu um stöðu mótamála var frestað.
b. Skýrslur starfshópa voru lagðar fram til kynningar en umræðu frestað fram yfir formanna- og framkvæmdastjórafund. Stjórnarfólk var hvatt til að kynna sér skýrslunar fyrir fundinn á laugardaginn.
c. Umræðu um dómaramál var frestað.

8. Formanna- og framkvæmdastjórafundur 27. nóvember
a. Samþykkt var að hafa blandað fyrirkomulag á fundinum, þ.e. einum fulltrúa frá hverju félagi er boðið að mæta í Laugardalinn en aðrir fulltrúar félaganna tengjast fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
b. Dagskrá fyrir fundinn var samþykkt.


9. Níu mánaða uppgjör
a. Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti níu mánaða uppgjör sambandsins. Tekjur ársins verða mun lægri en gert var ráð fyrir í áætlun, m.a. covid takmarkana sem vörðu lengur en áætlað var, vegna dræmrar miðasölu á landsleiki A landsliðs karla og lægri framlaga frá UEFA en gert var ráð fyrir (færast yfir á næsta ár). Rekstrargjöld eru í flestum tilfellum í samræmi við fjárhagsáætlun en þó fara einstaka liðir framyfir áætlun, sbr. til dæmis ársþing og aukinn ráðgjafarkostnaður. Landsliðskostnaður verður lægri en gert var ráð fyrir. Spá fyrir afkomu ársins hefur þó batnað frá 6 mánaða uppgjöri.


Steven Martens, FIFA Technical Director, Hesterine de Reus, FIFA High Performance Specialist og Charles Boorman, FIFA MA Division tóku sæti á fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

10. Fulltrúar FIFA gáfu stjórn KSÍ skýrslu um verkefnið: Talent Development – Football Ecosystem Analysis: Iceland. FIFA gefur greint stöðu knattspyrnunnar í flestum knattspyrnusamböndum heimsins. Farið var yfir hvað vel er gert hjá KSÍ og hvað má betur fara. Þar var FIFA til dæmis tíðrætt um „National training center“ þar sem hægt væri að hlúa betur að efnilegustu leikmönnum landsins. Rætt var um stuðning FIFA til framtíðar.

Steven Martens, FIFA Technical Director, Hesterine de Reus (FIFA High Performance Specialist) og Charles Boorman, FIFA MA Division yfirgáfu fundinn.

11. Önnur mál
a. Samþykkt var að hafa óbreytt fyrirkomulag á leikmannavali KSÍ 2021.
b. Umræðu um erindi var frestað.
c. Þýðing á siðareglum FIFA, umræðu frestað.
d. Í samræmi við málsgrein 7.3.f í reglugerð KSÍ um leyfismál hefur Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs sagt sig frá störfum í Leyfisráði. Stjórn KSÍ flytur Lúðvík miklar þakkir fyrir áratuga óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar knattspyrnu.


Næsti fundur verður 2. desember 2021.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 21:10.