• þri. 30. nóv. 2021
  • Landslið
  • A kvenna

Fjögurra marka sigur í Larnaca

Mynd:  Knattspyrnusamband Kýpur.

A landslið kvenna vann öruggan fjögurra marka sigur á Kýpur þegar liðin mættust í undankeppni HM 2023 í Larnaca á Kýpur í dag, þriðjudag.

Íslenska liðið hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik og sótti stöðugt að marki Kýpur, á meðan kýpverska liðið reyndi að beita skyndisóknum. Það var ekki löng bið eftir fyrsta marki leiksins, en það gerði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir beint úr aukaspyrnu á 8. mínútu. Annað markið kom síðan á 16. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að markskot fór í hönd varnarmanns. Sveindís Jane Jónsdóttir gerði þriðja markið á 37. mínútu með skoti úr teignum.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri og íslenska liðið var mun sterkari aðilinn. Fjórða mark íslenska liðsins gerði Guðrún Arnardóttir á 62. mínútu. Karólína Lea átti skot í slána úr aukaspyrnu, Guðrún náði frákastinu og skallaði boltann í netið. Fleiri mörk voru ekki skoruð þrátt fyrir nokkur færi og niðurstaðan öruggur fjögurra marka íslenskur sigur.

Ísland er komið með 9 stig eftir fjóra leiki í riðlinum og er í 2. sæti á eftir Hollandi sem er með 11 stig eftir fimm leiki. Tékkar eru sem stendur með fimm stig eftir fjóra leiki.

Annar leikur í riðlinum átti að fara fram í dag þar sem áttu að mætast Tékkar og Hvít-Rússar í Tékklandi, en leiknum var frestað þar sem upp komu Covid-smit í röðum Hvít-Rússa.

Skoða stöðuna og leikina í riðlinum