Tveggja marka íslenskur sigur á sterku japönsku liði
A landslið kvenna vann flottan 2-0 sigur á Japan í vináttulandsleik sem leikinn var í Almere í Hollandi í kvöld, fimmtudagskvöld.
Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik, Japanir voru meira með boltann án þess að ná að ógna marki Íslands að ráði. Íslenska liðið náði forystunni á 14. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir keyrði upp völlinn og inn í teiginn hægra megin og lét vaða á markið. Agla María Albertsdóttir var svo nálægt því að tvöfalda forystu Íslands eftir um hálftíma leik þegar hún átti skot í slána eftir klafs í japanska vítateignum. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Japanir meira með boltann án þess að skapa sér alvöru færi. Agla María var aftur aðgangshörð upp við japanska markið eftir um klukkutíma leik þegar hún átti skalla rétt framhjá. Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Íslandi síðan í tveggja marka forystu á 70. mínútu þegarGlódís Perla Viggósdóttir átti langa sendingu fram völlinn á Sveindísi, sem sendi fyrir markið og Berglind var mætt til að reka endahnút á frábæra sókn. Eftir seinna markið settu Japanir mikla pressu á íslensku vörnina, sem stóðst áhlaupið og tveggja marka íslenskur sigur staðreynd, flott frammistaða gegn sterku japönsku liði, sem er í 13. sæti á styrkleikalista FIFA, en Ísland er í 17. sæti.
Næsti leikur íslenska liðsins er á þriðjudag gegn Kýpur í undankeppni HM 2023. Tveir leikir fara fram í riðlinum á föstudag þar sem mætast annars vegar Kýpverjar og Hvít-Rússar, hins vegar Tékkar og Hollendingar.