• lau. 13. nóv. 2021
  • Landslið
  • A kvenna

Jóladagatal íslenska kvennalandsliðsins

KSÍ gaf út á dögunum jóladagatal íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta.  Dagatalið er framleitt á Íslandi og inniheldur 24 númeruð umslög með 48 fótboltaspjöldum sem skarta myndum og fróðleik um íslenskar landsliðskonur fyrr og nú. Dagatalið er frábær leið til að kynnast stelpunum í landsliðinu betur áður en þær halda á EM á Englandi á næsta ári.

Með dagatalinu er talið niður til jóla með okkar fremstu landsliðskonum eins og Söru Björk, Glódísi Perlu, Söndru Sig, yngri og upprennandi landsliðskonum eins og Amöndu, Sveindísi Jane sem og fyrrverandi landsliðskonum sem spilað hafa yfir 100 landsleiki eins og Margréti Láru og Eddu Garðars.

Þau sem eignast dagatalið hafa möguleika á að taka þátt í leik sem nefnist ‘Byrjunarliðið’ og vinna vegleg verðlaun eins og Apple Watch, áritaða landsliðstreyju o.fl.

Framleiðsla, hönnun og efnisöflun var í höndum Berglindar Ingvarsdóttur og Þorbjargar Helgu Ólafsdóttur. Hugmyndin kemur einnig frá Berglindi og Þorbjörgu Helgu sem bjuggu til dagatal með 24 bestu fótboltakonum í heimi fyrir jólin 2020 fyrir fjáröflun dætra sinna sem spila í yngri flokkum Þróttar R. Það hefur verið klár vöntun á fótboltaspjöldum í kvennaboltanum og er þessi útgáfa því frábær viðbót við það sem hefur verið í boði hingað til.

Sérstakar þakkir fær Hafliði Breiðfjörð fyrir myndatöku.

Dagatalið verður fáanlegt hjá Vodafone sem er bakhjarl verkefnisins, Heimavellinum, Jóa útherja, Fyrir Ísland, Músik og sport og á farvi.is.

Fyrir Ísland - Talið niður til jóla með íslenska kvennalandsliðinu

Kassinn (stærð: 10 x 7,5 x 7 cm) inniheldur 24 númeruð umslög með 48 fótboltaspjöldum sem skarta myndum og fróðleik um íslenskar landsliðskonur fyrr og nú.

Þau sem eignast dagatalið hafa möguleika á að taka þátt í leik sem nefnist 'Byrjunarliðið' og vinna vegleg verðlaun:

Byrjunarliðið

Á umslögunum eru annað hvort mynd af leikmanni eða heiti á landsleik. Til að taka þátt:

  1. Skannaðu QR kóðann og finndu byrjunarliðið.
  2. Raðaðu umslögunum upp með byrjunarliðinu í viðkomandi leik.
  3. Taktu mynd af uppröðuninni og sendu á leikur@ksi.is fyrir 1. janúar 2022 með nafni og símanúmeri og þú gætir unnið.