• þri. 09. nóv. 2021

2268. fundur stjórnar KSÍ - 3. nóvember 2021

2268. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn miðvikudaginn 3. nóvember 2021 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram í Laugardalnum og á Teams.

Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Valgeir Sigurðsson varaformaður, Ásgrímur Helgi Einarsson, Helga Helgadóttir, Ingi Sigurðsson, Orri V. Hlöðversson (fulltrúi ÍTF/vék af fundi kl. 20:15) og Sigfús Ásgeir Kárason.

Mætt á Teams: Borghildur Sigurðardóttir varaformaður (vék af fundi kl. 20:02).

Mættir varamenn í stjórn: Kolbeinn Kristinsson, Margrét Ákadóttir (tók sæti á fundinum kl. 16:18) og Þóroddur Hjaltalín.

Fjarverandi: Guðlaug Helga Sigurðardóttir og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Mættir undir dagskrárlið 1: Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs og Haukur Hinriksson leyfisstjóri KSÍ.


Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ opnaði fundinn og bauð Lúðvík S. Georgsson og Hauk Hinriksson velkomna á fundinn og gaf þeim orðið.

1. Lúðvík fór yfir aðdraganda leyfiskerfisins hjá UEFA og kynnti kerfið fyrir stjórnarfólki. Lúðvík og Haukur kynntu tillögur um breytingar á leyfisreglugerð KSÍ. Stjórn fór vel yfir tillögurnar og er efnislega sammála þeim. Stjórn samþykkti að gefa Laga- og leikreglnanefnd umboð til að ljúka nauðsynlegum reglugerðarbreytingum í samræmi við umræðu á stjórnarfundinum. Stjórn er sammála því að vinnureglur með nauðsynlegum viðmiðunum (í grein 3.b.) verði settar í tengslum við breytingarnar.

Lúðvík S. Georgsson og Haukur Hinriksson yfirgáfu fundinn kl. 17:00.

2. Fundargerð síðasta fundar var lögð fram en hafði áður verið samþykkt rafrænt:

a. Fundargerð 2267.

Í framhaldinu var rætt um fundargerðir stjórnar. Stjórn samþykkti að formfesta betur undirritun fundargerða stjórnar og varðveislu þeirra.

3. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar en formenn nefnda/starfshópa fylgdu fundargerðum sínum úr hlaði. Þá var samþykkt að undir þessum lið á komandi fundum verði fluttar fréttir af starfsemi ÍTF:

a. Landsliðsnefnd U21 karla 26. október

b. Mannvirkjanefnd 26. október

4. Skipan í nefndir.

Stjórn samþykkti að skipa nýja meðlimi í eftirtaldar nefndir:

a. Margrét Hafsteinsdóttir í laga- og leikreglnanefnd

b. Sigríður Baxter Þorláksdóttir í fræðslunefnd

5. Staða verkefna

a. Framkvæmdastjóri KSÍ fór yfir það sem er efst á baugi í landsliðsmálum og undirbúningi fyrir úrslitakeppni EM kvenna.

b. Formaður kynnti yfirlit yfir fundi með aðildarfélögum sem fram fara á tímabilinu 16. nóvember – 10. desember. Stjórnarfólk hvatt til að mæta á þá fundi sem það hefur kost á.

c. Fundir með ÍTF eru framundan. Sá fyrsti á morgun snýr að mótamálum.

d. Fundir með bakhjörlum eru framundan, sá fyrsti þann 9. nóvember.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ vék af fundi.

e. Borghildur Sigurðardóttir varaformaður kynnti tvær tillögur kjaranefndar um launakjör formanns KSÍ. Sú fyrri snýr að kjörum formanns og sú síðari að nefndin geri heildstæða endurskoðun með tilliti til hlutverks og verkefna formanns að næsta ársþingi loknu. Stjórn staðfesti tillögurnar og fól kjaranefnd að undirrita samninga við Vöndu Sigurgeirsdóttur formann KSÍ.

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ tók aftur sæti á fundi.

6. Skýrsla starfshóps a. Á fundi stjórnar KSÍ 29. ágúst var samþykkt að setja á laggirnar starfshóp „til að leiða vinnu með utanaðkomandi fagaðilum til að endurskoða öll viðbrögð við kynferðisbrotum og ofbeldi innan knattspyrnuhreyfingarinnar“. Hópurinn hefur nú lokið vinnu sinni og skilað til KSÍ tillögum „varðandi vinnulag, viðhorf og menningu“. Fram eru lagðar fjórar tillögur og undir hverri tillögu eru lagðar fram nokkrar leiðir til að ná markmiði hverrar tillögu. Stjórn KSÍ þakkar starfshópnum fyrir vinnuna og tillögurnar, farið verður yfir og unnið með þær á næstu vikum og mánuðum. Vinna við sumar af tillögunum er þegar komin af stað.

7. Samskiptaáætlun, inngripsáætlun (viðbragðsáætlun) og forvarna- og fræðsluáætlun.

a. Formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, kynnti drög að samskiptaáætlun.

b. Rætt um viðbragðsáætlun. Skoðaðar voru fyrirmyndir frá Norðurlöndum og ÍBR. Málið verður unnið áfram á milli funda.

c. Rætt um forvarna- og fræðsluáætlun. Farið var yfir stöðu mála, en málið verður rætt frekar á næsta fundi.

8. Mótamál

a. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar ræddi um mótamálin. Rætt var um áður samþykkta breytingu á keppnisfyrirkomulagi í 3. flokki (Íslandsmóti A liða). Þetta fyrirkomulag var samþykkt til reynslu. Laga- og leikreglnanefnd þarf að vinna að útfærslu á reglugerðinni og leggja síðan aftur til stjórnar til samþykktar. Rætt um það hvaða markmiðum þessi breyting á að ná og hvernig reynslan verður metin. Einnig þarf að hafa í huga hagsmuni þeirra leikmanna sem eru ekki í A liðum.

b. Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar fór yfir dómaramál sambandsins en fjöldi dómarastarfa sem skrifstofan raðar niður á hefur fjölgað mikið sl. ár. Skoða þarf leiðir til að þróa starfið áfram, ekki síst með tilliti til VAR, mögulegra breytinga á fyrirkomulagi deildakeppni og stefnumótun dómaramála. Skoða þarf kostnaðaráætlun í samráði við fjárhags- og endurskoðunarnefnd.

9. Önnur mál

a. Lögð var fram tillaga um jafnréttisfulltrúa KSÍ (einn frá stjórn og einn af skrifstofu) og samþykkti stjórn að skipa Guðlaugu Helgu Sigurðardóttur úr stjórn og Ómar Smárason af skrifstofu KSÍ sem jafnréttisfulltrúa KSÍ.

b. Margrét Ákadóttir spurði um starfshlutfall þjálfara hjá KSÍ. Framkvæmdastjóri og formaður voru til svara.

c. Helga Helgadóttir spurði um U21 landslið kvenna. Framkvæmdastjóri og formaður voru til svara.

Næsti fundur verður 18. nóvember 2021.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 21:10.