Greiðslur til félagsliða leikmanna á EM 2022
Á fundi framkvæmdastjórnar UEFA í september voru samþykktar í fyrsta sinn greiðslur til félagsliða leikmanna sem eru í leikmannahópum A landsliða kvenna í úrslitakeppni EM. Fyrirkomulagið vegna EM kvenna 2022 er svipað og UEFA hefur unnið með karlamegin, þar sem slíkar greiðslur hafa tíðkast um nokkurt skeið.
Heildarupphæðin í þessum potti fyrir EM kvenna 2022 er 4,5 milljónir evra, sem skiptist síðan milli félagsliða leikmanna eftir ákveðinni reikniformúlu sem í stuttu máli miðast við þann fjölda daga sem hver leikmaður er með sínu landsliði vegna undirbúnings fyrir mótið (hámark 10 dagar) og svo vegna þátttöku í mótinu. Upphæðin per leikmann er 500 evrur á dag og greiðslurnar munu berast félögunum í október/nóvember 2022. Fyrir hvern leikmann ætti því félagslið að fá að lágmarki 10.000 evrur.
- Greiðslur eru einungis vegna leikmanna sem eru í 23 manna lokahópi hvers landsliðs.
- Einungis evrópsk félagslið eiga rétt á þessum greiðslum.
- Engar greiðslur eru vegna leikmanna sem eru án félags.