Markalaust hjá U17 karla gegn Ungverjalandi
U17 landslið karla gerði í dag markalaust jafntefli við Ungverjaland í lokaleik sínum í undankeppni EM. Úrslitin þýða að bæði lið sitja eftir í riðlinum, en Eistland og Georgía fara áfram í milliriðil.
Þó leikurinn í dag hafi verið markalaus var hann virkilega fjörugur, jafn og spennandi og fullt af marktækifærum á báða bóga, íslenska liðið átti 12 marktilraunir og ungverska liðið átti 16 tilraunir. Ef öðru hvoru liðinu hefði tekist að knýja fram sigur þá hefði það lið farið áfram í milliriðil, miðað við úrslitin í hinum leiknum, þar sem Eistland vann 1-0 sigur. Íslenska liðið skoraði tvö mörk í leikjunum þremur og fékk á sig þrjú mörk, og lauk keppni í fjórða og neðsta sæti með tvö stig.