• þri. 26. okt. 2021
  • Landslið
  • A kvenna

Fimm marka sigur gegn Kýpur

A landslið kvenna vann fimm marka sigur á Kýpur í undankeppni HM 2023 í kvöld, þriðjudagskvöld, og er íslenska liðið í öðru sæti riðilsins með sex stig eftir þrjá leiki.  Stigin sex komu í tveimur sigrum í tveimur heimaleikjum í þessum landsliðsglugga - fyrst var það 4-0 sigur gegn Tékkum og svo 5-0 sigurinn gegn Kýpur í kvöld.  Í Hvíta-Rússlandi voru Hollendingar í heimsókn og gestirnir unnu þar tveggja marka sigur, skoruðu bæði mörk leiksins með stuttu millibili um miðjan seinni hálfleik.

Yfirburðir íslenska liðsins voru miklir í leiknum og í raun aldrei spurning hver niðurstaðan yrði, bara hversu stór sigurinn yrði.  Studdar dyggilega af frábærum áhorfendum sótti Ísland stöðugt að marki Kýpverja allan leikinn.  Þrjú markanna komu í fyrri hálfleik og voru þar að verki Dagný Brynjarsdóttir með skalla á 14. mínútu, Sveindís Jane Jónsdóttir með þrumuskoti á 21. mínútu og Karólína Lea með skoti úr teignum í uppbótartíma.  Tvö mörk bættust við í seinni hálfleik - Fyrst skoraði Sveindís Jane sitt annað mark á 55. mínútu og fimmta og síðasta mark Íslands í leiknum gerði Alexandra Jóhannsdóttir.

Fjórir leikir eru í riðlinum í nóvember.  Þann 26. nóvember mætast annars vegar Kýpur og Hvíta-Rússland, hins vegar Tékkland og Holland.  Fjórum dögum síðar mæta Tékkar Hvít-Rússum og Íslendingar mæta Kýpur ytra.

Riðilllinn og leikirnir