Vel sótt málþing fyrir konur
Málþing fyrir konur í stjórnum og ráðum knattspyrnudeilda var haldið föstudaginn 22. október í höfuðstöðvum KSÍ í tengslum við leik Íslands og Tékklands í undankeppni HM kvenna sem fram fór sama dag. Málþingið var afar vel sótt, um sextíu konur frá 28 félögum víðsvegar um land sóttu málþingið en tilgangur þess var að efla konur í knattspyrnuhreyfingunni og mynda tengslanet fyrir þær.
Á málþinginu voru flutt þrjú erindi – frá Guðrúnu Ingu Sívertsen skólastjóra Verslunarskóla Íslands og fyrrum varaformanni KSÍ, Vöndu Sigurgeirsdóttur formanni KSÍ og loks Margréti Láru Viðarsdóttur fyrrum landsliðsfyrirliða sem flutti leikgreiningu fyrir leik Íslands við Tékkland.
Almenn ánægja var með málþingið og vill KSÍ þakka þeim konum sem sáu sér fært að mæta fyrir þátttökuna og vonast til að sjá sem flestar á næsta viðburði.