U17 karla gerði 1-1- jafntefli við Georgíu
U17 landslið karla gerði í dag, föstudag, 1-1 jafntefli við Georgíu í undankeppni EM. Leikið var á Budaörsi Városi Stadion í Budarös í Ungverjalandi. Á sama tíma mættu heimamenn Eistlandi og unnu 3-0 sigur.
Leikur Íslands og Georgíu var jafn og spennandi hörkuleikur og liðin skiptust á að sækja allan tímann. Bæði lið fengu fín marktækifæri, en íslenska liðið var líklegra. Georgíumenn náðu þó forystunni með marki á 41. mínútu eftir hornspyrnu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Okkar drengir sóttu stöðugt í sig veðrið og uppskáru jöfnunarmark á 81. mínútu. Þar var að verki Daníel Tristan Guðjohnsen eftir aukaspyrnu frá Jóhannesi Kristni Bjarnasyni.
Þetta reyndust einu mörkin og lokatölur því 1-1 og íslenska liðið með eitt stig í riðlinum. Næsta umferð er leikin á mánudag og þá leika annars vegar Ungverjaland og Georgía, en hins vegar Ísland og Eistland. Fylgjast má með öllum leikjum riðilsins í beinni textalýsingu á vef UEFA.