Fjögurra marka sigur gegn Tékkum
A landslið kvenna mætti Tékklandi í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld, föstudagskvöld, og vann glæsilegan 4-0 sigur. Leikurinn var jafnari en tölurnar gefa til kynna, hörkuleikur milli tveggja sterkra liða, en íslenska liðið nýtti færin sín betur og er komið með sín fyrstu stig í riðlinum. Hollendingar gjörsigruðu Kýpverja á sama tíma með átta mörkum gegn engu í Larnaca á Kýpur og eru á toppi riðilsins með sjö stig eftir þrjá leiki, þar á meðal sigur gegn Íslandi og jafntefli gegn Tékklandi.
Það var jafnræði með liðum Íslands og Tékklands í leiknum, mikil barátta í úrhellisrigningu á þjóðarleikvanginum. Fyrsta mark leiksins kom á 12. mínútu og er skráð sem sjálfsmark, fyrirgjöf frá vinstri og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skaust fram fyrir varnarmann og setti boltann í stöngina, þaðan barst boltinn í markvörð Tékka og svo í netið. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.
Tékkneska liðið sótti nokkuð í upphafi seinni hálfleiks en íslenska liðið sótti smám saman í sig veðrið og var hættulegra í teignum. Dagný Brynjarsdóttir skoraði með skalla á 59. mínútu og kom Íslandi í tveggja marka forystu. Tvær fyrirgjafir frá Guðnýju Árnadóttur sköpuðu næstu tvö mörk. Fyrst skoraði Svava Rós Guðmundsdóttir, sem hafði nokkrum mínútum áður komið inn á sem varamaður, með góðu vinstri fótar skoti á 81. mínútu eftir fyrirgjöf Guðnýjar og sendingu Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur fyrirliða. Gunnhildur Yrsa var svo sjálf á ferðinni tveimur mínútum síðar, aftur eftir fyrirgjöf Guðnýjar, þegar hún innsiglaði fjögurra marka sigur Íslands.
Íslenska liðið er með þrjú stig í riðlinum og mætir Kýpur í næsta leik sínum, á Laugardalsvelli á þriðjudag kl. 18:45. Sama dag mætast Hvíta-Rússland og Holland. Hvít-Rússar eru eins og Íslendingar með þrjú stig, Tékkar eru með fjögur stig og Kýpverjar án stiga.
Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net