• þri. 19. okt. 2021
  • Pistlar
  • Landslið
  • A kvenna

Áfram Ísland og íslensk knattspyrna!

Kæru stuðningsmenn.

Mig langar að senda ykkur öllum kæra kveðju og góðar þakkir fyrir stuðninginn við strákana okkar í A landsliði karla á leiknum við Liechtenstein í síðustu viku. Íslenska liðið var mun betri aðilinn í leiknum eins og úrslitin gefa til kynna og frammistaðan var fyrsta flokks. Ekki síður ánægjulegt var að heyra stemmninguna og finna gleðina hjá stuðningsmönnum liðsins í báðum stúkum. Tólfan stýrði stemmningunni af sinni alkunnu snilld og ég er viss um að undirtektir annarra stuðningsmanna gáfu þessu unga og efnilega íslenska liði byr undir báða vængi inni á vellinum.

Bakhjarlar KSÍ, aðildarfélög og þeirra iðkendur, sem og ungir stuðningsmenn og þeirra aðstandendur eiga einnig hrós skilið fyrir að bregðast vel við ákalli um stuðning. Ég vil hvetja ykkur öll til að standa áfram við bakið á landsliðunum okkar og endurtaka leikinn með því að mæta líka á leikina tvo sem eru framundan hjá A landsliði kvenna – leikir í undankeppni HM gegn Tékklandi 22. október og gegn Kýpur 26. október. Um algjöra lykilleiki er að ræða og mikilvægt að ná sem flestum stigum því stefnan hefur svo sannarlega verið sett á að komast í lokakeppni HM kvenna í fyrsta sinn. Stöndum saman og styðjum stelpurnar okkar!

Áfram Ísland og íslensk knattspyrna!

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ

 

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.