2264. fundur stjórnar KSÍ - 1. október 2021
2264. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn föstudaginn 1. október 2021 og hófst kl. 16:04. Fundurinn fór fram í Laugardalnum.
Mættir stjórnarmenn: Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ingi Sigurðsson, Orri Hlöðversson, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Mættir varamenn í stjórn: Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Þóroddur Hjaltalín og Jóhann Torfason.
Mættir landshlutafulltrúar: Jakob Skúlason VL (tók sæti á fundi kl. 16:15), Björn Friðþjófsson NL og Tómas Þóroddsson SL.
Fjarverandi: Bjarni Ólafur Birkisson landshlutafulltrúi AL.
Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.
Gísli Gíslason varaformaður setti fund kl. 16:04.
1. Fundargerð síðasta fundar var lögð fram en hafði áður verið samþykkt á rafrænan hátt á milli funda:
a. Fundargerð 2263
2. Yfirlýsing stjórnar á aukaþingi
a. Yfirlýsing stjórnar fyrir komandi aukaþing var lögð fram og samþykkt. Jafnframt var samþykkt að Gísli Gíslason varaformaður flytti yfirlýsinguna fyrir hönd stjórnar.
b. Þá samþykktu þeir fulltrúar sem gefa ekki kost á sér til áframhaldandi trúnaðarstarfa fyrir KSÍ eftirfarandi bókun:
Þessi fundur er sá síðasti sem við undirrituð fulltrúar í stjórn KSÍ, varastjórn og landshlutafulltrúar sitja, en undirritaðir munu segja af sér trúnaðarstörfum fyrir KSÍ á aukaþingi sem haldið verður 2. október nk., í samræmi við yfirlýsingu okkar þann 29. ágúst sl. Áður hafði núverandi stjórn gefið það út að hún hygðist sitja fram að reglubundnu ársþingi í febrúar á næsta ári til að hafa festu í starfsemi sambandsins. En afsögnin var samhljóma niðurstaða stjórnarinnar í kjölfar ályktunar formanna innan ÍTF og 9 félaga í neðri deildum, þann 28. ágúst sl. þar sem var kallað eftir því að við öxluðum ábyrgð og m.a. nefnt að mörg okkar hafi setið lengi og í ljósi þess ábyrg fyrir þeim málum sem til umfjöllunar hafa verið. Þó svo að einstakir fulltrúar félaga innan aðildarfélaga KSÍ hafi komið að máli við nokkur okkar í aðdraganda aukaþings og hvatt okkur til að leggja knattspyrnuhreyfingunni áframhaldandi lið, þá liggur fyrir að ályktun formanna innan ÍTF stendur enn óbreytt og eru það okkur vonbrigði. Við ljúkum því vegferð okkar sem stjórnarmenn KSÍ þar sem við höfum starfað af heilum hug og átt gott og gefandi samstarf í þágu knattspyrnuhreyfingarinnar.
Að frumkvæði stjórnar er nú hafin vinna faghóps með utanaðkomandi fagaðilum um að endurskoða öll viðbrögð við kynferðisbrotum og ofbeldi innan hreyfingarinnar og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þolendur. Þá hefur nefnd sem við óskuðum eftir að ÍSÍ setti á laggirnar, til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð stjórnarinnar, tekið til starfa.
Mikilvægi sjálfboðaliða í knattspyrnuhreyfingunni er gríðarlegt. Lykilatriði er að knattspyrnu-hreyfingin njóti starfskrafta sjálfboðaliða í starfi KSÍ til að halda hreyfingunni gangandi. Því vonum við að forráðafólk í félögum í landinu hugi að starfsumhverfi sjálfboðaliðanna í grasrótinni og í stjórn og nefndum á vegum KSÍ þannig að gott og öflugt fólk með góðar hugmyndir njóti þess að starfa í þágu æsku landsins og knattspyrnunnar. Endurgjald sjálfboðaliðans felst í jákvæðum samskiptum, góðum kynnum og árangri í þágu knattspyrnunnar.
Jafnframt óskum við nýju fólki á vettvangi KSÍ velfarnaðar og þökkum frábæru starfsfólki sambandsins fyrir einkar ánægjulega samfylgd og samstarf.
Gísli Gíslason
Þorsteinn Gunnarsson
Ragnhildur Skúladóttir
Magnús Gylfason
Guðjón Bjarni Hálfdánarson
Jóhann Króknes Torfason
Jakob Skúlason
Björn Friðþjófsson
Bjarni Ólafur Birkisson
Tómas Þóroddsson
3. Önnur mál
a. Rætt um málefni fyrrverandi formanns.
b. Þorsteinn Gunnarsson formaður útbreiðslunefndar gaf skýrslu um Molaverkefnið. Moli heimsótti 61 staði í ár og gekk verkefnið mjög vel.
c. Valgeir Sigurðsson lagði fram bókun:
Ég Valgeir Sigurðsson legg fram eftirfarandi bókun á fundi stjórnar KSÍ þann 1. október 2021.
Ég veit auðvitað miklu betur eftir að hafa setið í þessari stjórn í um fjögur ár.
Ég veit að ég hef starfað með góðu og öflugu fólki, fólki sem gefið hefur mikið af sínum tíma til þeirra sjálboðaliðastarfa sem það var kjörið til,
fólki sem bað aldrei um neitt fyrir sig, fólki sem hefur mikla reynslu og þekkingu, fólki sem hefur lagt mikið á sig, fólki sem lagt hefur mikið af mörkum.
Fólki sem knattspyrnuhreyfingin má vera stolt af. Fólki sem ég sjálfur er stoltur af að hafa starfað með.
Ásgeir Ásgeirsson, missir fótboltans er mikill !
Gísli Gíslason, missir fótboltans er mikill !
Magnús Gylfason, missir fótboltans er mikill !
Ragnhildur Skúladóttir, missir fótboltans er mikill !
Þorsteinn Gunnarsson, missir fótboltans er mikill !
Guðjón Bjarni Hálfdánarson, missir fótboltans er mikill !
Jóhann Króknes Torfason, missir fótboltans er mikill !
Bjarni Ólafur Birkisson, missir fótboltans er mikill !
Björn Friðþjófsson, missir fótboltans er mikill !
Jakob Skúlason, missir fótboltans er mikill !
Tómas Þóroddsson, missir fótboltans er mikill !
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Þakka ykkur öllum innilega fyrir samstarfið.
d. Í lok fundar þakkaði fráfarandi stjórnarfólk fyrir sig.
Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 17:40.