Víkingar Mjólkurbikarmeistarar karla 2021
Víkingur R. er Mjólkurbikarmeistari karla 2021. Víkingar mættu Skagamönnum í úrslitaleik á Laugardalsvelli í dag, laugardag, og unnu sigur með þremur mörkum gegn engu.
Leikurinn byrjaði fjörlega og liðin skiptust á að sækja og áttu bæði hættuleg færi á fyrstu mínútunum. Erlingur Agnarsson braut ísinn með fyrsta marki leiksins fyrir Víkinga á 17. mínútu þegar hann skoraði með góðu skoti eftir sendingu frá Pablo Punyed. Víkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og þeir tvöfölduðu forystuna þegar Kári Árnason skoraði með skalla eftir hornspyrnu, með síðustu snertingu fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikur byrjaði af svipuðum krafti og sá fyrri og aftur skiptust liðin á að sækja. Erlingur Agnarsson komst snemma einn gegn Árna Marinó Einarssyni í marki ÍA, en Árni varði vel. Jafnræði var með liðunum en Víkingar voru áfram hættulegri og Pablo átti skot í stöng eftir rúman klukkutíma. Nokkrum mínútum síðar fékk Gísli Laxdal Unnarsson upplagt tækifæri til að minnka muninn fyrir ÍA, en Ingvar Jónsson markvörður Víkings lokaði vel og varði skotið. Sóknarþungi Víkinga Jókst. Kwame Quee átti þrumuskot í stöng Skagamarksins á 72. mínútu og tveimur mínútum síðar varði Árni í marki ÍA vel skot frá Atla Barkarsyni Víkingi, og strax í kjölfarið átti Atli þrumuskot úr aukaspyrnu rétt framhjá marki ÍA. Skagamenn sóttu í sig veðrið og Ingvar í marki Víkinga varði með tilþrifum skot frá Steinari Þorsteinssyni Skagamanni á 86. mínútu. Helgi Guðjónsson innsiglaði sigur Víkings og þar með Mjólkurbikarmeistaratitilinn með þriðja marki leiksins á lokamínútunni eftir skyndisókn og góðan sprett upp vinstri kantinn.
Leikurinn var hin besta skemmtun og stórkostleg stemmning á meðal áhorfenda, sem voru 4.829 talsins.
Víkingur fagnaði einnig sigri í Mjólkurbikarnum 2019, en ekki var leikið til úrslita 2020 vegna Covid. Þetta er þriðji bikarmeistaratitill Víkings, en sá fyrsti kom árið 1971.
Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.