Tap hjá Breiðablik gegn PSG
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tapaði 0-2 fyrir PSG í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, en leikið var á Kópavogsvelli.
PSG var meira með boltann allan leikinn, en Blikar sköpuðu sér þó nokkur góð færi. Það voru PSG sem komust yfir á 17. mínútu leiksins þegar Lea Khelifi setti boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Sakina Karchaoui. Agla María Albertsdóttir var nálægt því að jafna metin um miðjan fyrri hálfleik, en Barbora Votiková varði vel í marki PSG. Staðan því 0-1 í hálfleik.
Blikar komu af krafti út í síðari hálfleikinn og var Kristín Dís Árnadóttir nálægt því að jafna strax í upphafi hans. Síðari hálfleikurinn var svipaður þeim fyrri, PSG var meira með boltann en þó án þess að skapa sér opin færi. Þeim tókst þó að skora aftur í lok leiksins, en þar var að verki Grace Geyoro. Lokastaðan því 2-0 fyrir PSG.
Breiðablik mætir næst Real Madrid ytra miðvikudaginn 13. október kl. 19:00.