25 félög hafa ekki skilað kjörbréfi fyrir aukaþing
Aukaþing KSÍ verður haldið á Hilton Nordica í Reykjavík á laugardag. Á aukaþinginu verður kosin bráðabirgðastjórn og formaður, sem sitja fram að ársþingi í febrúar 2022. Fram kemur í grein 12.1 í lögum KSÍ að meiri en helmingur þingfulltrúa þurfa að vera mættir á knattspyrnuþing svo atkvæðagreiðsla teljist gild. Þetta á við jafnvel þó stjórn sé sjálfkjörin.
Tveimur dögum fyrir þing er staða kjörbréfa þannig að alls hafa 43 félög skilað kjörbréfi fyrir samtals 104 þingfulltrúa af þeim 143 sem eiga rétt til setu á þinginu. Enn hafa 25 félög ekki skilað kjörbréfi og í langflestum tilfellum er um að ræða félög sem eiga rétt á einum þingfulltrúa.