Aukið fé í Meistaradeild kvenna
Eins og áður hefur verið fjallað um á vef KSÍ ákvað UEFA að auka fjármagn í Meistaradeild kvenna.
Í heildina verður ráðstafað 24 milljónum evra í keppnina á þessu tímabili, en 5.6 milljónir evra, eða 23% af upphæðinni, mun fara beint í þróunarsjóð félaga í kvennaknattspyrnu. Þessi sjóður tekur mið af hinu fjölbreytta landslagi og mismunandi stöðu félaga og knattspyrnusambanda í Evrópu og er honum ætlað að hvetja til frekari vaxtar kvennaknattspyrnu alls staðar.
Öll þau aðildarlönd UEFA sem áttu a.m.k. eitt lið sem tekur þátt í Meistaradeild kvenna á þessu tímabili munu fá fjármagn sem mun deilast jafnt á öll þau félög í efstu deild kvenna sem taka ekki þátt í Meistaradeildinni á tímabilinu. Upphæðin er beintengd árangri félaga frá viðkomandi knattspyrnusambandi í Meistaradeildinni. Því lengra sem félag kemst, því hærri upphæðir er um að ræða. Ef fleiri en eitt félag tekur þátt er árangur þess liðs sem kemst lengra í keppninni notaður til að reikna út lokaupphæðina.
Breiðablik og Valur hófu leik í forkeppni Meistaradeildar kvenna. Breiðablik er komið alla leið í riðlakeppni keppninnar og er þar með Real Madrid, PSG og Kharkiv í riðli. Valur datt út í forkeppninni.
Frekari upplýsingar má finna á vef UEFA.