• fim. 23. sep. 2021

2262. fundur stjórnar KSÍ - 21. september 2021

2262. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn þriðjudaginn 21. september 2021 og hófst kl. 15:30. Fundurinn fór fram í Laugardalnum og á Teams.

Mættir stjórnarmenn: Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ingi Sigurðsson, Orri Hlöðversson, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættir varamenn í stjórn: Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Jóhann Torfason og Þóroddur Hjaltalín.

Mættir fulltrúar landshluta: Jakob Skúlason (landshlutafulltrúi VL).

Mættir á Teams: Magnús Gylfason (aðalmaður í stjórn), Bjarni Ólafur Birkisson (landshlutafulltrúi AL) og Björn Friðþjófsson (landshlutafulltrúi NL).

Fjarverandi: Tómas Þóroddsson (landshlutafulltrúi SL).

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Aðrir gestir: Fulltrúar FIFA, Nodar Akhalkatsi og Charles Boorman tóku sæti á fundinum undir dagskrárlið 1 og Ingvar Sverrisson frá samskiptafélaginu Aton JL tók sæti á fundinum undir dagskrárlið 2b.

Gísli Gíslason varaformaður setti fund stundvíslega kl. 15:30.

1. Heimsókn frá FIFA
a. Fulltrúar FIFA, Nodar Akhalkatsi og Charles Boorman, tóku sæti á fundinum og fluttu stjórn kveðju FIFA og buðu fram stuðning FIFA við stjórn og skrifstofu í aðdraganda aukaþings. Þá var rætt um stuðning FIFA við KSÍ í framhaldinu.

2. Upplýsingagjöf fram að aukaþingi
a. Stjórn KSÍ samþykkti að ganga til samninga við samskiptafélagið Aton JL um ráðgjöf við upplýsingagjöf fram að aukaþingi.
b. Ingvar Sverrisson frá Aton JL tók sæti á fundinum og fór yfir málin með stjórn.

3. Aðkoma ÍSÍ að óháðri skoðun á atburðarás og störfum KSÍ (sbr. bókun á síðasta stjórnarfundi).
a. Í framhaldi af beiðni KSÍ til ÍSÍ um óháða skoðun á störfum KSÍ samþykkti stjórn KSÍ að gefa Gísla Gíslasyni varaformanni umboð til að skrifa undir verksamning með ÍSÍ um úttektarnefnd um störf KSÍ.

4. Fundargerðir síðustu funda voru samþykktar:
a. Fundargerð 2257
b. Fundargerð 2258
c. Fundargerð 2259
d. Fundargerð 2260
e. Fundargerð 2261

5. Aukaþing
a. Lögð var fram dagskrá þingsins til kynningar.
b. Stjórn KSÍ samþykkti að leggja til við aukaþing að Þórir Haraldsson og Helga Guðrún Guðjónsdóttir verði þingforsetar.
c. Stjórn KSÍ samþykkti að leggja til við aukaþing að Ágúst Ingi Jónsson og Dagur Sveinn Dagbjartsson verði þingritarar.

d. Stjórn KSÍ samþykkti að bjóða Leikmannasamtökunum og ÍTF sæti á aukaþinginu í samræmi við grein 9.9. í lögum KSÍ og gaf framkvæmdastjóra ennfremur umboð til að bjóða frambjóðendum sem eru ekki á kjörbréfi þingsetu.
e. Rætt var um yfirlýsingu stjórnar KSÍ á aukaþinginu.

6. Mótamál
a. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar flutti stjórn yfirlit yfir mótamál:
- Pepsi Max deild kvenna - Íslandsmeistari 2021 er Valur. Lið Breiðabliks hafnaði í 2. sæti. Lið Tindastóls og Fylkis flytjast niður um deild.
- Lengjudeild kvenna – Sigurvegari 2021 eru KR. Afturelding hafnar í 2. sæti og flytjast bæði lið upp í Pepsi Max deild kvenna 2022. Grótta og ÍA flytjast niður um deild.
- 2. deild kvenna – Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir stendur uppi sem sigurvegari 2021. Lið Fjölnis hafnaði í 2. sæti.
- Lengjudeild karla – Fram hafnaði í efsta sæti 2021 og lið ÍBV í 2. sæti. Bæði lið flytjast upp í Pepsi Max deild karla tímabilið 2022. Lið Þróttar og Víkings Ól. flytjast niður í 2. deild. Enn er tveimur leikjum í deildinni ólokið vegna Covid-19 frestana en ljóst er að sæti á toppi og botni deildarinnar munu ekki breytast.
- 2. deild karla – Þróttur er sigurvegari 2021. Lið KV hafnaði í 2. sæti og flytjast bæði lið upp um deild 2022. Lið Fjarðabyggðar og Kára flytjast niður í 3. deild.
- 3. deild karla – Höttur/Huginn er sigurvegari 2021. Lið Ægis hafnaði í 2. sæti. Bæði lið flytjast upp um deild 2022. Lið Einherja og Tindastóls flytjast niður í 4. deild.
- Úrslitakeppni 4. deildar karla – Lið KH er sigurvegari í 4. deild 2021. Kormákur/Hvöt hafnaði í 2. sæti.
- Mjólkurbikar karla og kvenna er ólokið. Úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna fer fram 1. okt og undanúrslit karla 2. okt. Úrslitaleikur Mjólkurbikars karla fer fram laugardaginn 16. okt.
- Mótum yngri flokka er flestum lokið. Ekki er þó öllum úrslitaleikjum í bikarkeppni 3. flokks og 2. flokks lokið.
- Pepsi Max deild karla lýkur laugardaginn 25. september. Veðurútlit þessa stundina er ekki gott á leikdag. Mótanefnd er bundin af gr. 23.1.9. reglugerðar um knattspyrnumót um að raða leikjum í síðustu umferð í efstu deild karla á sama tíma. Verið er að skoða möguleikana fyrir helgina í samvinnu við félögin.
b. Lögð fram erindi frá Breiðabliki og Þrótti vegna leikmannamála Breiðabliks í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna. Kolbrún Arnardóttir lögfræðingur hjá KSÍ hefur fundað með fulltrúum FIFA vegna málsins. Málið er í vinnslu hjá Samninga- og félagaskiptanefnd KSÍ.

7. Landsliðsmál
a. U19 kvenna lauk fyrr í dag þátttöku í riðlakeppni EM kvenna með sigri á Serbíu 2-0. Með þeim sigri hélt liðið sæti sínu í A deild U19 kvenna.
b. Rætt um komandi landsliðsverkefni í september, en A landslið kvenna á leik í kvöld gegn Hollandi. U15 karla leikur tvo vináttuleiki gegn Finnlandi í vikunni og U17 kvenna er á leið til Serbíu og tekur þar þátt í undankeppni EM.

8. Önnur mál
a. Farið var yfir fréttir af vettvangi UEFA/FIFA um HM, Super League og FIFA summit sem fram fer í október.
b. Ákveðið hefur verið á vettvangi Norðurlanda að hætta við sameiginlega umsókn Norðurlandanna um HM kvenna 2027.
c. Rætt um starfslok fyrrverandi formanns en engin ákvörðun tekin í því sambandi.
d. Lagður var listi yfir helstu verkefni KSÍ til ársþings í febrúar nk.
e. Rætt um að gera samantekt á stöðu nefndarstarfa til nýrrar stjórnar.
f. Orri Hlöðversson fór yfir fréttir frá ÍTF.

Næsti fundur verður þriðjudaginn 28. september 2021. Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 17:15